Helgin framundan

Helgin framundan á eftir að verða annasöm hjá okkur íshokkímönnum bæði norðanlands og sunnan. Í dag og á morgun er spilað mót í þriðja flokki karla og er það haldið á Akureyri. Mótið er hluti af íslandsmóti karla og þarna er fínt tækifæri fyrir framtíð Íslands í íshokkí að sýna hvað í þeim býr. Ef allur undirbúningur stenst verður hægt að fylgjast með því helsta úr þessum leikjum á úrslitasíðununni en tengill inn á hana er efst til hægri á forsíðunni hjá okkur.

Narfamenn leggja einnig land undir fót og halda til Akureyrar. Þeir leika þar við SA-menn, bæði föstudags og laugardagskvöld. SA menn komu mörgum á óvart um síðustu helgi þegar þeir lögðu SR-inga að velli í Laugardalnum. Narfamenn hafa átt á brattann að sækja í leikjum sínum í vetur og svo verður sjálfsagt eitthvað áfram. Rétt eins í leikjunum í þriðja flokki verður hægt að fylgjast með útsendingu á úrslitalsíðunni hjá okkur.

Rúsínan í pylsuendanum er svo leikur Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur sem fram fer í Egilshöllinni á sunnudaginn klukkan 15.00. Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV og er þetta í fyrsta skipti sem leikur í íshokkí er sendur út í beinni útsendingu í opinni rás. Þetta er stórt og gott skref fyrir okkar litlu íþrótt og vonandi aðeins byrjunin að því sem koma skal. Þrátt fyrir útsendinguna hvetjum við alla áhugamenn um íshokkí að mæta á leikinn og hvetja sína menn. Björninn hóf tímabilið hressilega með því að vinna Aseta-mótið í eftirminnanlegum úrslitaleik en síðan hefur aðeins verið á brattann að sækja fyrir þá. SR-ingar voru hinsvega á blússandi siglingu allt þar til þei töpuðu fyrir SA um síðustu helgi. Pekkjakast verður eftir heflun í leikhléunum. Sjáumst hress.

Myndina tók Ólafur Ragnar Ósvaldsson

HH