Helgin

Helgin var ágætlega lífleg þótt styttist óðfluga í jólin. Um helgina var leikinn leikur í kvennaflokknum en þá tóku Bjarnarstelpur á móti SA-yngri og fór leikurinn fram í Egilshöll. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 0 - 0 þannig að framlengja þurfti leikinn. Framlengingin skilaði engu marki og því var gripið til vítakeppni. Þar náðu Bjarnastelpur að tryggja sér aukastigið en það var nýkjörinn íshokkímaður ársins í kvennaflokki, Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir, sem skoraði úr sínu víti. SA-yngra liðið hefur verið í stöðugri framför en Bjarnastelpur áttu þó meira öllu meira í leiknum. Margrét Arna Vilhjálmsdóttir markvörður þeirra SA-stúlkna átti hinsvegar stórleik í markinu og átti margar góðar markvörslur. Næsti leikur í kvennakeppninni fer fram 9. janúar en þá mætast á Akureyri eldra lið SA og Björninn.

Um helgina fóru einnig fram æfingabúðir U20 liðsins og ekki annað að sjá en að vel væri tekið á. Liðið sem við teflum fram að þessu sinni er vel skipað og því vonandi að árangurinn verði eftir því.

HH