Helgarhokkí í Egilshöll.

Þessa helgina er það Egilshöllin sem er miðdepill hokkísins. Skautafélagsmenn frá Akureyri munu að þessu sinni heimsækja þá Bjarnarmenn. Í kvöld leika liðin í meistarflokki karla og hefst leikurinn klukann 21.00. Bjarnarmenn hafa átt í hvað mestum vandræðum í byrjun vetrar og nú fer að koma tími á að þeir sýni sitt rétta andlit. SA-menn töpuðu hinsvegar nokkuð óvænt, að mörgum fannst, fyrir sprækum SR-ingum og vilja því að sjálfsögðu koma sér á rétta sporið aftur.
Þess má geta að SA-menn fengu í dag leikheimild fyrir nýjan leikmann að nafni Joshua Gribben.
Hér er á ferðinni kanadískur varnarmaður sem á síðasta spilaði í Ástralíu á síðasta tímabili þar. SA-menn misstu Birkir Árnason til náms í Danmörku fyrir þetta tímabil og því mun koma Joshua óneitanlega styrkja vörn norðanmanna.
Á morgun leika sömu lið aftur og í það skiptið hefst leikurinn á öllu skemmtilegri tíma eða klukkan 19.00 og strax að þeim leik loknum spila sömu lið í þriðja flokki karla.

HH