Heimsókn lokið

Þá er heimsókn hins danska Jens Christian Fossaberg lokið.  Hann dvaldi hérlendis frá fimmtudegi fram á mánudag, dæmdi líkt og fram hefur komið þrjá leiki, einn í kvennaflokki og tvo í meistaraflokki karla.  Einnig hélt hann tvö stutt námskeið á ís í sitt hvorum landshlutanum.
 
Hann tók strangt á öllum smábrotum og liðin fengu fleiri 2 mínútna dóma en þau eiga að venjast.  Hann tók strangt á öllum kylfubrotum og hindrunum og menn fuku umsvifalaust útaf.  Þetta gerði það reyndar að verkum að leikirnir urðu óvenju langir en vonandi lærdómsríkir.
 
Námskeiðin voru sömuleiðis mjög lærdómsrík.  Fyrra námskeiðið fór fram á Akureyri á föstudaginn og voru þátttakendur 8 talsins, bæði frá SA og Narfa.  Seinna námskeiðið fór fram í Reykjavík á sunnudagskvöldið en á það námskeið mættu aðeins tveir frá SR og enginn frá Birninum sem verður að teljast heldur dapurlegt.  Félögin verða að nýta þau tækifæri sem gefast til að þjálfa sína dómara og línudómara því öðruvísi tekur þessi hluti hokkísins ekki framförum.
 
Í heildina var þó mikil ánægja með heimsókn hans og til athugunnar að endurtaka leikinn eftir áramótin.  Næst á dagskrá er að senda út dómara og/eða línudómara til frekari þjálfunar.