Heimsmeistarar Kanada heiðra minningu Fálkanna frá Winnipeg


30. ágúst næstkomandi hefst Heimsbikarkeppnin í íshokkí. Átta bestu lið heims þ.e. Kanada, Svíþjóð, Finnland, Þýskaland, Tékkland, Bandaríkin, Slóvakía og Rússland taka þátt að þessu sinni. Leikið verður bæði vestan hafs og austan og dagskránna er hægt að nálgast á http://wch2004.com

Heimsmeistarar Kanada munu leika sinn fyrsta leik gegn Bandaríkjunum í Bell Centre í Montreal að kvöldi 31. ágúst. Það hefur verið ákveðið að leika þennan fyrsta leik í eftirlíkingum af peysum Fálkanna frá Winnipeg til þess að heiðra minningu þeirra.

Á Ólympíuleikunum í Antwerpen í Belgíu árið1920 var í fyrsta skipti keppt í íshokkí á Ólympíuleikum. Fyrstu ólympíumeistarar heimsins í íshokkí urðu Kanadamenn. Fyrir hönd Kanada lék lið Fálkanna frá Winnipeg, en liðið var þá Kanadameistari í íshokkí. Í liðinu voru allir leikmenn að einum undanskildum synir íslenskra innflytjenda, og báru íslensk nöfn. Það má því segja að við Íslendingar eigum okkar þátt í því að Kanada vann það frækna afrek að verða fyrstu Ólympíumeistarar heimsins í íshokkí.

Íshokkísambandið heiðraði Fálkanna á sínum tíma með því að láta hanna merki sambandsins þeim til heiðurs. Helsta tákn merkisins er íslenski fálkinn.

Það var ekki tilviljun að félagið í Winnipeg hét Falcon, eða Fálkinn. Nafn félagsins var bein tilvitnun í íslenska fálkann, eitt helsta tákn frelsisbaráttu íslensku þjóðarinnar á seinnihluta 19. aldar. Eldurinn í merki ÍHÍ undir jöklinum minnir á Kanadalaufið (The Maple Leaf), til þess að styrkja enn frekar þessi tengsl Íslands við Kanada og fyrstu Ólympíumeistarana.

Við hvetjum alla Íslendinga til að halda á lofti minningu þessara miklu afreksmanna sem áttu sér rætur í íslensku þjóðlífi á einum mestu harðindatímum þjóðarinnar, á síðustu áratugum 19.aldar.

Nánar má lesa um Fálkanna frá Winnipeg á http://www.winnipegfalcons.com