Heimildir Mbl í okkar ranni.

Mikil umræða hefur verið síðasta sólahring eftir að Morgunblaðið í gær birti lýsingu af gömlum leik þegar það fjallaði um fyrsta leik SR og SA í úrslitum íslandsmóts karla.

Skýring er komin á því hvernig þessi mistök áttu sér stað. Eins og kunnugt er hefur ÍHÍ verið að gera tilraunir með beinar útsendingar á netinu í vetur og notað til þess hugbúnað sem kemur frá danska Íshokkísambandinu. Nokkuð erfiðlega hefur gengið að ná úr kerfinu barnasjúkdómum og lagði ÍHÍ niður frekari tilraunir í desember. Áformað var að gefa sér betri tíma til þess að staðfæra hugbúnaðinn og kemba úr honum villurnar áður en frekari notkun yrði reynd.

Á heimasíðu ÍHÍ var stór takki þar sem sagði "Bein útsending, ýtið hér" blaðamaður morgunblaðsins gerði nákvæmlega það og rakst þá á lýsingu af leik SR og SA sem leikin var í undankeppni í desember síðastliðnum. Eða síðasta leik þar sem að útsendingarkerfið var reynt á. Þar er komin hin skringilega lýsing sem að hokkíáhugafólk gat lesið í Morgunblaðinu í gærmorgun.

Morgunblaðið birti í morgun nýja grein og aftur stóra mynd þar sem að þeir sögðu frá leiknum (réttum leik) og skýrðu frá því hvernig mistökin áttu sér stað. Fyrir það ber að þakka sérstaklega, blaðið hefur með myndarskap leiðrétt og beðist afsökunar á mistökum sínum.

Fyrir hönd ÍHÍ vill undirritaður biðjast afsökunar á þessum misskilning og þakka Morgunblaðinu fyrir áhuga þess á íþróttinni okkar.  Til þess að koma í veg fyrir að viðlíka mistök eigi sér stað aftur, hefur verið ákveðið að fjarlægja umræddan takka þar til farið verður að senda beint út á nýjan leik.

Að lokum langar mig svo að nota tækifærið og minna á annan leik SR og SA í úrslitum sem að verður leikinn á morgun fimmtudag í Skautahöllinni á Akureyri og hefst klukkan 20:00

Með íþróttakveðju

Viðar Garðarsson

fomaður ÍHÍ