Heilbrigðisteymi á öllum hokkíleikjum fyrir norðan

Heilbrigðisteymi er nú á öllum heimaleikjum SA í Skautahöllinni á Akureyri og þá gildir einu hvort um sé að ræða fullorðins- eða barnaflokka. Teymið samanstendur af 14 einstaklingum sem öll eiga það sameiginlegt að starfa með einum eða öðrum hætti í heilbrigðisgeiranum og vera tengd SA. Í teyminu eru hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraliðar og sjúkraflutningafólk. Á öllum leikjum eru 1 - 3 úr heilbrigðisteyminu í merktum gulum vestum og eru tilbúin að bregðast við ef eitthvað kemur uppá. Hér er um ómetanlega aðstoð að ræða sem unnin er í sjálfboðavinnu til þess að auk öryggi þeirra sem íþróttina stunda.
Frumkvæðið að þessu verkefni á hokkípabbinn, Jóhann Þór Jónsson og hann stóð einmitt vaktina sjálfur í gær þegar kvennalið SA og SR mættust. Jóhann hefur starfað sem sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður í rúm 30 ár og margoft staðið vaktina á hokkíleikjum og m.a. á heimsmeistaramótunum sem haldin hafa verið hér. Þetta er jákvæð og mikilvæg þróun sem vonandi á eftir að festa sig í sessi hjá okkur.

Frétt af vefsíðu SA