Háspennusigur gegn Búlgaríu í kvöld

Í leikslok og úrslitin á töflunni
Í leikslok og úrslitin á töflunni

Ísland vann Búlgaríu 4-3 í æsispennandi leik í kvöld, leik sem þróaðist á mjög sérstakan hátt og var á margan hátt óvenjulegur.  Í fyrstu lotu voru yfirburðir Íslands miklir og liðið var með pökkinn nánast alla lotuna og á meðan við áttum á þriðja tug skota áttu Búlgarar aðeins eitt skot á mark.  Þrátt fyrir það var staðan aðeins 1-0 okkur vil eftir mark frá Andra Mikaelssyni í "powerplay" eða þegar við vorum einum leikmanni fleiri.  Í annarri lotu gekk hins vegar hvorki né rak og Búlgarir gengu á lagið og náðu forystunni með tveimur mörkum með skömmu millibili.   Kári Arnarsson jafnaði leikinn fyrir Ísland rétt fyrir lok lotunnar og það var mjög mikilvægt á þessum tímapunkti í leiknum.  

Í síðustu lotunni var allt í járnum og lengi vel leit allt út fyrir að gestirnir myndu hafa þetta.  Ísland lenti í brottrekstrarvandræðum um miðbik lotunnar og missti þrjá leikmenn í boxið og tveimur fleiri á ísnum nýttu Búlgarir sér liðsmuninn og juku forystuna í 3-2.   Skömmu síðar snérist staðan við og við fengum sama liðsmun en náum ekki að nýta færin okkar þrátt fyrir fjölmörg dauðafæri.  

Á síðustu mínútum leiksins var markmaðurinn tekinn úr íslenska markinu og framherjum fjölgað í staðinn og það bar árangur.  Þegar um 90 sek voru eftir af leiknum jafnaði Uni Blöndal leikinn úr þröngu færi og allt ætlaði af göflum að ganga.  Síðustu sekúndur leiksins voru svakalegar og þakið ætlaði að rifna af höllinni þegar Unnar Rúnarsson skoraði sigurmark leiksins þegar aðeins 17 sek voru eftir af leiknum.   Frábær baráttusigur hjá okkar mönnum og frábær skemmtun fyrir gesti skautahallarinnar.

Uni Steinn Blöndal - Maður leiksins

Uni skoraði þarna sitt fyrsta mark í fullorðinsliði og var valinn maður leiksins í leikslok. 

Annars voru mörk og stoðsendingarnar hjá okkar mönnum eftirfarandi:  Gunnar Arason 0/2, Unnar Rúnarsson 1/1, Andri Mikaelsson 1/0, Kári Arnarsson 1/1, Uni Blöndal 1/0, Viggó Hlynsson 0/1, Hákon Magnússon 0/1.

Heildarfjöldi skota í leiknum var 68 á móti 13 og í marki Íslands stóð Jakob Jóhannesson.