Góður sigur Íslands á Búlgaríu, í kaflaskiptum leik

Íslensku strákarnir fagna marki í leik á móti Búlgaríu 2025
Íslensku strákarnir fagna marki í leik á móti Búlgaríu 2025

Eftir erfiðan leik á móti Georgíu átti íslenska landsliðið góðan en kafla skiptan leik gegn Búlgaríu í gær (mánudag) en uppskáru afar sannfærandi sigur 8-4.

Strax í fyrsta leikhluta var greinilegt að íslenska landsliðið var búið að hrista af sér allan ferða-hrollinn og mættir á ísinn til að spila íshokkí.  Eftir ýmsar þreifingar og nokkrar refsingar á báða bóga leit fyrsta mark leiksins ljós þegar lotan var rétt hálfnuð, eða á 9 mínútu, þegar Jóhann Már Leifsson tók eitt af sínu alþekktu “coast-to-coast” siglingum í gegnum allt Búlgarska liðið og kom pekkinum snyrtilega í netið.  Unnar Rúnarsson og Róbert Pálsson voru honum þar til aðstoðar.

Þegar rétt um 2 mínútur lifðu lotunnar kom alveg ótrúlegur kafli hjá íslenska liðinu þar sem Unnar Rúnarsson, Hafþór Sigrúnarson og Uni Sigurðarsson Blöndal skoruðu mörk í öllum regnbogans litum.  Ivan Hodulov náði rétt að klóra í bakkann fyrir Georgíu með einu heppnis marki, skot í skautann hjá Halldóri Skúlasyni sem rataði fram hjá Róberti Steingrímssyni sem átti annars frábæra lotu í marki Íslands.  Kristján Hróar Jóhannesson lokaði svo lotunni fyrir Ísland þegar 15 sekúndur voru eftir af lotunni og skorði, laglegt, fyrsta karlalandsliðsmark.  

Staðan eftir fyrstu lotu 5 - 1 fyrir Íslandi.

Strákarnir héldu uppteknum hætti í byrjun annarar lotu og Hafþór Sigrúnarson jók en á forsystu Íslands með góðu marki á 26 mínútu með aðstoð frá Unnari Rúnarssyni og Jóhanni Má Leifssyni.  En þá tók við afar slæmur kafli hjá okkar strákum þar sem nær öll skynsemi í leik voru fyrir borð borin og fór liðið að raða inn refsimínútum.  Varnartröllið Halldór Skúlason fékk t.d stóran dóm og brottvísun úr leik (5+GM) um miðbik lotunnar sem gaf þeim búlgörsku heilar 5 mínútur í yfirtölu, óuppsegjanlegar.  Búlgarir gengur á lagið og skoruðu alls 3 mörk án þess að það íslenska næði að svara.  Búlgarir greinilega komnir með vind í seglin og stemmningin þeirra megin í lotunni.

Staðan eftir aðra lotu orðin 6 - 4 fyrir Íslandi.

Eftir ærlegt tiltal frá þjálfarateyminu inn í búningsklefa og mikla hvatningu kom lið Íslands endurræst til leik í þriðju og síðustu lotuna.  Viktor Mojzyszek skorði fyrir Ísland á 36 mínútu.  Viggó Hlynsson og Róbert Pálsson með stoð.  Unnar Rúnarsson bætti svo enn á markareikninginn þegar rétt um hálf mínúta lifði leiks. Jóhann Már Leifsson og Kristján Hróar Jóhanneson með stoð.

Loka niðurstaða 8 - 4 sigur fyrir Íslandi, í kaflaskiptum leik.  Jóhann Már Leifsson var valinn besti leikmaður liðsins eftir leikinn.

Næsti leikur liðsins er næstkomandi miðvikudag kl.13:00 að staðartíma (kl.01:00 aðfaranótt miðvikudags að  íslenskum tíma).  Þar mætum við spútnik liði Kínverska Taípei (Taívan) og verður áhugavert að sjá hvernig okkar strákar spila á móti léttum og snöggum leikmönnum Taívan.

Textalýsingu leiksins er hægt að nálgast á vef Alþjóðasambandins, https://www.iihf.com/en/events/2025/wmiib/gamecenter/playbyplay/63289/4-isl-vs-bul 

Einnig er hægt að horfa á streymi frá leikjunum, bæði í beinni og eftir á, á iihf.tv