Góður sigur í gær, grátlegt tap í dag.

Fyrsta marki mótsins fagnað.  Ljós. Elvar Pálsson
Fyrsta marki mótsins fagnað. Ljós. Elvar Pálsson

Mótið fór vel af stað í gær með góðum 3 – 0 sigri á Belgum í opnunarleik mótsins.   Eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafði sett mótið hófust átökin, en ekki dróg til tíðinda fyrr enn í þriðju lotu.   Þá opnaði Björn Róbert Sigurðarson markareikninginn með sigurmarkinu eftir sendingar frá Agli Þormóðssyni og Pétri Maack.   Hin mörkin tvö voru í tómt markið þar sem gestirnir freistuðu þess að þyngja sóknina á lokamínútunum og tóku markmanninn í staðinn úr markinu.  Mörkin skoruðu Emil Alengard og Jón Gíslason eftir sendingar frá Birni Róberti og Ingvari Jónssyni.  Góður baráttusigur gegn góðu liði Belga.

Leikurinn í kvöld var einnig mjög jafn og barrátta fram á síðustu mínútu, í orðins fyllstu merkingu.  Eftir góða byrjun var Ísland komið í 2 – 0 eftir mörk frá Agli Þormóðssyni og Pétri Maack, bæði eftir sendingu frá Birni Róberti og að seinni markinu kom einnig Andri Helgason.   Serbar voru þó ekki af baki dottnir og jöfnu leikinn rétt fyrir lok fyrstu lotu og allt í járnum.

Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson kom Íslandi aftur yfir í 5 á 3  „power play“ um miðbik lotunnar eftir sendingar frá Emil Alengard og Robin Hedström og eftir að Serbar jöfnuðu náði Úlfar Andrésson aftur forystunni fyrir Ísland eftir góðan undirbúning Emils.

Þannig stóðu leikar þegar þriðja lotan hófst en þrátt fyrir jafnræði með liðunum náðu Serbar að skora tvö mörk og tryggja sér sigurinn, en sigurmarkið kom þegar aðeins 19 sekúndur voru eftir af leiknum.  Grátlegt tap sem þó má ekki dvelja við.

Öll liðin eru jöfn og allir leikir verða mjög erfiðir og þrátt fyrir þetta tap getur enn allt gerst í riðlinum.  Á morgun er frídagur en á fimmudaginn verða mótherjarnir Spánverjar og þá verður allt lagt í sölurnar.