Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna.

Stjórn Íshokkísambands Íslands (ÍHÍ) hefur ákveðið að færa tvo leiki í Hertz-deild kvenna, SR-SA 7. og 8. janúar. Leikirnir verða leiknir 28. og 29. janúar 2022.  Er þessi færsla vegna aðstæðna í samfélaginu vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Alþjóðaíshokkísambandið (IIHF) aflýsti heimsmeistaramóti U20 drengja og U18 stúlkna sem átti að vera í janúar 2022. Samkvæmt frétt frá IIHF þá verður reynt að halda mótin síðar, ef aðstæður leyfa vegna heimsfaraldurs. Vonandi rætist úr þessu svo við fáum tækifæri til að taka þátt í þessum mótum.

Stjórn ÍHÍ samþykkti samhljóma félagaskiptabeiðni frá Skautafélagi Reykjavíkur. Salka Omaira Rautava kemur frá Finlandi og mun spila og starfa með meistaraflokki kvenna SR. Undanfarið hefur Salka spilað með Storm Hyvinkaa Naiset.

Vladimir Kolek kemur til landsins í vikunni eftir gott jólafrí, hann mun halda áfram þjálfun þjálfara og iðkenda aðildarfélaga ÍHÍ og þar sem ekkert U20 mót er framundan í Belgrad þá mun Vlado skipta tíma sínum jafnt á aðildarfélögin þrjú og taka þar meiri þátt en ráð var gert.

Rúnar Eff Rúnarsson aðalþjálfari landslið U18 er farinn að undirbúa landsliðsæfingar U18 og mun kalla saman landsliðsúrtak á næstu dögum og skipuleggja landsliðsæfingar. Landsliðið stefnir á þátttöku í heimsmeistaramóti U18 sem haldið verður í Istanbúl í byrjun apríl 2022.

Heimsmeistaramót kvenna í annarri deild b verður haldið í Króatíu í mars. Nýja Sjáland og Ástralía hafa nú þegar dregið sig úr keppni og eftir standa fjögur lið. Mótið er á áætlun og verður því styttra en fyrri dagskrá gaf til kynna. Jón Benedikt Gíslason aðalþjálfari landslið kvenna mun kalla landsliðshópinn til æfinga og stefnum við á gullið í Króatíu.

Stjórn og framkvæmdastjóri ÍHÍ þakka öllum sjálfboðaliðum  og iðkendum innilega vel fyrir allt á árinu 2021. Sjáumst hress á árinu 2022.