Gleðilega hátíð

Gull drengir U20, 2020.
Gull drengir U20, 2020.

Gleðilega hátíð.

Litið um öxl og horft til framtíðar.

Árið 2020 er margt ólíkt öðrum árum í okkar íþrótt og ber þar aðallega að nefna það ástand sem hefur ríkt vegna covid-19. Heimsfaraldurinn hafði áhrif á endalok Íslandsmóta vorið 2020 og sló af tvö heimsmeistaramót, fjögurra þjóða U20 kvenna mót, Continental Cup og frestaði undankeppni Ólympíuleika kvenna.

Engu að síður þá héldum við heimsmeistaramót kvenna á Akureyri í lok febrúar 2020 og gerðu okkar landsliðskonur sér lítið fyrir og unnu silfurverðlaun. Þátttökuþjóðir auk Íslands voru Ástralía, Króatía, Úkraína, Tyrkland og Nýja Sjáland. Veður var slæmt í aðdraganda mótsins og var það talsverð áskorun að koma öllum liðum norður á Akureyri en það tókst og mótið var hið glæsilegasta að öllu leiti. Skautafélag Akureyrar bar hitan og þungan af framkvæmd mótsins og óhætt að segja að mótið hafi verð ævintýri líkast fyrir þátttökuþjóðirnar enda langt ferðalag fyrir alla og margvíslegar nýjar áskoranir.

Landslið U20 vann gullverðlaun á heimsmeistaramóti U20 sem haldið var í Búlgaríu í janúar 2020. Þátttökuþjóðir auk Íslands voru Tyrkland, Kínverska Taipei, Nýja Sjáland, Búlgaría og Suður Afríka. Með því að vinna heimsmeistaramótið færðumst við upp um styrkleikaflokk og munum því taka þátt í annarri deild B á næsta móti.

Mótanefnd ÍHÍ vann að nýrri mótaskrá Íslandsmóta 2020/2021 en vegna heimsfaraldurs þá hefur keppni varla getað hafist og óvíst hvernig þróun mála verður. Vonumst við þó að geta byrjað mótin aftur í janúar 2021 en þó með breyttu sniði enda tímabilið rétt um hálfnað. Að sama skapi þá eru alþjóðleg mót í uppnámi fyrrihluta árs 2021 en um leið og faraldurinn gengur niður þá munum við mæta sterk til leiks með öll okkar lið og taka þátt í öllum alþjóðlegum mótum sem okkur býðst.

Að auki þá munum við taka virkan þátt í endurmenntun okkar þjálfara og dómara. Búið er að gera ráðstafanir með að fá dómara erlendis frá til að heimsækja okkur og halda dómaranámskeið og að sama skapi hafa verið gerðar ráðstafanir að senda okkar dómara erlendis í verkefni. Við höfum lagt drög að því að fá erlenda þjálfara til að koma og þjálfa þjálfarana okkar enda slík endurmenntun nauðsynleg til að viðhalda og bæta umgjörð iðkenda og gæði leiksins. Framtíðarsýnin nær þó talsvert lengra og áríðandi að við finnum okkur farveg til að ráða íþróttastjóra sem hefur yfirumsjón með allri þjálfun íshokkí á Íslandi. Íþróttastjóri mun þannig stuðla að sameiginlegum skilningi þjálfunar og hæfileikamótunar iðkenda í samráði við landsliðsþjálfara hvers tíma.

Þessu samhliða er nauðsyn að auka og bæta aðstöðu okkar. Vonumst við til að byggt verði auka svell við Skautahöllina í Laugardal á næstu misserum. Stefnt er að bættri félagsaðstöðu í Skautahöllinni á Akureyri. Þessu samhliða er nauðsyn að viðhalda viðræðum við önnur sveitarfélög með byggingu skautasvella. Að fá annan klúbb til að stofnsetja íshokkí og listskauta mun gera allt okkar starf margfalt skemmtilegra og þannig getum við náð enn lengra á alþjóðlegum vettvangi.

Fyrir hönd ÍHÍ þá óska ég ykkur öllum gleðilega hátíð og farsældar á komandi ári.

Kærar þakkir til allra sem unnið hafa fyrir okkar frábæru íþrótt á liðnu ári.

Sjáumst hress á því næsta, förum varlega og njótum líðandi stundar.

Gleðileg jól, Konráð Gylfason.