Frá formanni aganefndar


Nú í upphafi leiktíðar hafa komið upp nokkur atriði í umgjörð leikja sem auðvelt er að lagfæra. Dæmi eru um að þjálfarar hafi ekki komið til leiks fyrr en leikurinn átti að vera hafinn. Í því tilfelli fengu ritarar leiksins ekki leikmannalista fyrr en þjálfarar mættu í hús. Dæmi eru líka um að leikskýrslur séu beinlínis rangar og illa útfylltar.
Svona losarabragur er fylgifiskur þess að tímabilið er að hefjast og ekki allir meðvitaðir um reglur og aðferðir sem beita skal.

Samkvæmt reglubókinni eiga þjálfarar eða liðsstjórar að afhenda nafnalista til ritarar 60 mínútum fyrir ætlaðan leiktíma. Ritarinn færir nöfnin inn á leikskýrslu og eftir það kvittar viðkomandi liðstjóri eða þjálfarar á skýrsluna. Þetta verður að klára áður en leikur getur hafist. Ef þessum formsatriðum er ekki fullnægt áður en leikur á að hefjast ber dómara leiksins að flauta leikinn af og dæma leikinn tapaðan því liði sem ekki hefur klárað þessi formsatriði í tíma.

Varðandi ófullnægjandi skýrslugerð er rétt að benda á að aganefnd hefur fulla heimild til þess að beita viðkomandi félag sektarákvæðum hafi félagið ekki hæfa starfsmenn í kringum heimaleiki sína. Mjög mikilvægt er að leikskýrslur séu útfylltar samkvæmt reglum og af samviskusemi.

Ég vill því brýna fyrir forráðamönnum allra liða í öllum aldursflokkum að taka til í þessum málum hjá sér svo ekki þurfi að koma til afskipta aganefndar út af svona formsatriðum.

Viðar Garðarsson
fom. aganefndar