Flugeldasala

Ágætu félagar

Eins og flest annað í kringum okkur þessa dagana, kemur kreppan til með að hafa nokkur áhrif á starf Íshokkísambandsins. Ljóst er að aðilar sem að hafa stutt okkur með ýmsum hætti árum saman eru annaðhvort ekki lengur aflögu færir eða geta þeirra til þess að styðja íþrótta og æskulýðsstarf verulega skert.

Í þessu ástandi var það því fengur fyrir okkar starf þegar flugeldasölu aðili óskaði eftir samstarfi við okkur nú í desember mánuði. Fyrir mig persónulega var þetta nokkuð erfitt skref að stíga, ég eyddi fjölda ára sem ungur maður í björgunarsveit og mér er fullkunnugt um það hversu mikilvæg flugeldasalan er fyrir þau samtök. En ég gerði mér líka alveg ljóst að hvort sem að ÍHÍ færi í samstarf við þennan aðila eða ekki mundi hann eftir sem áður selja flugelda. Því væri mikið betri kostur að sjá þessa fjármuni fara í okkar starf en ekki.

Það náðist samkomulag á milli aðila þar sem að ÍHÍ fær fyrir þátttöku sína verulega þóknun sem er tengd veltu. Auk þess sem að viðkomandi aðili býður öllum þeim sem hafa verið valdir í landsliðshópa ÍHÍ vinnu við flugeldasöluna sem að gerir þessa fjáröflun okkar enn betri. Þannig verður hagur íshokkí hreyfingarinnar enn meiri af þessu samstarfi.

Ég vill með línum þessum hvetja alla áhugamenn um íshokkí íþróttina til þess að kíkja niður í Mörkina 1 þar sem að þessi flugelda sala fer fram og leggja drengjunum okkar lið.

Megi hátíðirnar verða ykkur hugljúfar og góðar.

Með íþróttakveðju

Viðar Garðarsson

formaður ÍHÍ