Finnar og Kanada í úrslit heimsbikarsins

Þá er það orðið ljóst að Kanada og Finnland munu mætast í úrslitaleik Heimsbikarmótsins í íhokkí sem fram fer þriðjudaginn 14. september í Toronto. Finnar höfðu áður tryggt sér frækilegan sigur á Bandaríkjamönnum, 2-1, þar sem varnir liðanna voru í aðalhlutverki. Í þeim leik voru margir frægir kappar í liði Bandaríkjanna að ljúka sínum ferli með landsliðinu einsog Chris Chelios, Brian Leetch og hinn skotfasti Brett Hull. Hjá Finnum var Saku Koivu að vanda mjög sterkur og sýndi oft á tíðum snilldartakta, og sigurmark hans var glæsilegt. Einkenni Finna var hins vegar mjög fastur, líkamlegur leikur þar sem vöðvabúntið Ville Nieminen tæklaði allt sem hreyfðist.

Í gærkvöldi mættust svo Tékkar og Kanadamenn, sem fyrirfram mátti svo sem telja líklegustu liðin til að ná alla leið. Kanada vann leikinn 4-3 í framlengingu í stórkostlegum leik þar sem varamarkvörður þeirra, Roberto Luongo, fór á kostum. Tékkar léku þennan leik mjög vel og á köflum yfirspiluðu Kanada, sérstaklega í 3. leikhluta og í framlengingunni. Tékkar áttu t.d. 40 skot að marki en Kanada 24 með enn og aftur JAromir Jagr í aðalhlutverki. Þessir sóknaryfirburðir dugðu þó ekki og það var Vincent Lecavalier sem tryggði Kanadamönnum sæti í úrslitaleiknum með marki í framlengingu.

Það verður að segjast að Kanada er nú að nálgast þá stöðu innan íshokkís sem þá hefur alltaf dreymt um og talið þeirra, að vera óumdeilanlega bestir í heiminum. Nú hafa þeir unnið Ólympíutitilinn 2002, Heimsmeistarar 2003 og 2004, og kannski bæta þeir enn einni skrautfjöðrinni við á þriðjudagskvöldið. Það verður hins vegar að segjast að svolítil heppni hefur oft á tíðum einkennt þessa titla, oft mikið einstaklingsframtak, oft ólíklegra leikmanna, klárað leikina á síðustu stundu. Tékkar hljóta að vera mjög vonsviknir enda greinilega með geysilega öflugt lið, jafnvel það sterkasta í keppninni. Ef litið er á einstaka leikmenn þeirr má fullyrða að hvergi finnist eins margir góðir einstaklingar í einu liði og hjá Tékkum. En það gekk ekki upp hjá þeim að þessu sinni. Það verður því Finnland og Kanada sem mætast í úrslitaleiknum. Kanada fer í þann leik fullir sigurvissu en ástæða er til að vanmeta ekki seiglu Finnanna sem nú virðast hafa endurheimt sjálfstraustið sem Svíar hafa svo barið niður í leikjum þeirra. Þetta er í fyrsta sinn er Finnar komast í úrslitaleik Heimsbikarkeppninnar, og það tókst þeim þrátt fyrir að vera með frekar litla breidd og með lið sem ekki hefur sýnt þjálfara sínum fullt traust.

Grein þessi er afrituð af www.skautafelag.is