Ferðapistill nr. 1

Nýliðarnir í liðinu
Nýliðarnir í liðinu

 

Ferðalagið frá Íslandi til Nýja Sjálands er bæði langt og strangt. Flogið var til London þar sem fjórir leikmenn bættust í hópinn en þar var um 8 klst bið.  Þaðan var flogið til Seúl í S-Kóreu og þar tók við um 5 klst bið á býsna góðri flugstöð þar sem m.a. var hægt að fara í sturtu sem einhverjir nýttu sér.  Þaðan tók svo við um 11 klst flug niður til Auckland í Nýja Sjálandi.  Þar var stutt stopp, en þar þurftum við að ganga með allan útbúnaðinn á milli flugstöðvabygginga, tékka okkur inn og vigta allar töskurnar.  Í innanlandsflugi hér í landi eru mjög strangar reglur þess efnis að enginn taska megi vera þyngri en 23kg.  Við þurftum því að gjöra svo vel að vigta allar töskur og færa á milli og dreifa þyngdinni  - það tókst allt á endanum, þ.e.a.s. nema kylfutaskan sem vóg 29kg og passaði ómögulega inní heldur ferkantaða hugsun flugvallarstarfsmannanna. 

Fararstjórnin var heldur sein að tékka sinni eftir töluvert japl og jaml og fuður en það urðu tafir á fluginu þar sem farangur liðsins setti allt á annan endann hjá flugfélaginu.  Frá Auckland flugum við svo í klst til Wellington og þar þurftum við að skipta aftur um flugvél (á þeim tímapunkti hlýtur einhver ónefndur starfsmaður ÍHÍ að hafa fengið hiksta) og flugum með einhverri rellu yfir til Dunedin, en sú vél gat ekki tekið allan útbúnaðinn og eftir urðu kylfutaskan og hokkítaskan hans Björns Róberts.  Jóhann Leifsson átti að hitta okkur í Auckland en hann býr í Kanada og átti að fljúga í gegnum Bandaríkin en missti af fluginu og á skv. nýrri áætlun að skila sér á mánudaginn.

Eftir að hafa losað okkur við hokkígallana í skautahöllinni fórum við hingað á heimavistina sem við munum halda til á næstu dagana.  Skólinn heitir St. Margaret´s Collage – University of Otago og er sögufrægur háskóli hér um slóðir.  Þar var tekið á móti okkur af húsráðanda sem fór vel yfir reglur heimavistarinnar og það var ekki laust við að fararstjórnin brosti út í annað meðan á fyrirlestrinum stóð.  Þar var drengjum gerð grein fyrir því að í matsalnum tækju menn af sér húfur og væru í skóm og engum hlýrabolum.  Jafnframt skulu menn ganga frá eftir sig sjálfir í eldhúsinu og ef það þarf að þvo, þá gera þeir það sjálfir og svo var þeim vísað á þvottahúsið.  Sumir þeirra hafa aldrei séð þvottavélar og þar má reikna með forvitnilegu framhaldi.  Á göngunum skal vera komin ró kl. 23:00 og þá verður jafnframt útihurðunum læst. 

Á herbergjunum er enginn lúxus, allt teppalagt í hólf og gólf, ekkert sjónvarp og ekkert salerni.  Frammi á gangi eru hins vegar sameiginleg baðherbergi og sturtur með öðrum íbúum heimavistarinnar.  Strákarnir tóku þessu hins vegar bara vel og það fer vel um alla.  Herbergin eru öll einstaklingsherbergi sem er dálítið ólíkt því sem við eigum að venjast en menn verða fljótir að aðlagast.

Eftir þetta langa ferðalag þá reyndist auðvelt að snúa klukkunni við því við komum hér að kvöldi laugardags að staðartíma og fórum fljótlega í háttinn.    Í dag var svo ræs kl. 08:00 og eftir morgunmat var farið í göngutúr í bæinn og miðbærinn skoðaður aðeins fyrir hádegismatinn.  Seinnipartinn var svo fyrsta æfing liðsins og sem betur fór höfðu týndu töskurnar skilað sér í hús.

Æfingin gekk bara nokkuð vel en strákarnir voru dálítið ryðgaðir eftir ferðlagið og viðsnúning sólahringsins.  Liðið hefur bara daginn í dag og á morgun til að slípa sig saman en svo hefst mótið með fyrsta leik á móti Tyrkjum á þriðjudaginn. 

Á meðfylgjandi má sjá nýliðana í hópnum sem stilltu sér upp í myndatöku við þennan borða í göngutúrnum í dag.