Ferðapistill frá Mexíkó 4. hluti

Farastjórn og kanski einstaka leikmenn fylgjast með veðurspánni heima á meðan þeir dvelja hér í Mexíkóborg. Hér ganga menn um á stuttbuxum eða kvartbuxum og hitinn er alltaf 20+ og slær stundum nálægt 30 gráðum á Celsius. Lítið fer því fyrir ófærð og ofankomu. Fimmtudagurinn var frídagur hvað spilamennsku varðaði og þar sem æfingin var mátulega seint fengu menn að sofa alveg til níu. Hefðbundin klukkutíma æfing var tekin og síðan var tekin hádegisverður um klukkan tvö.

Skoðunarferð í bæinn var þessu næst á dagskrá en á leiðinni í bæinn nestuðu menn sig upp með vatni og viðbiti. Veðrir var einsog best var á kosið og því létt yfir mannskapnum.
Þó að eitt og annað sé í niðurníðslu hér í Mexíkóborg þá eru líka staðir í henni sem minna á gamla tíma þegar töluverð velmegun hefur ríkt. Húsbyggingar í miðborginni miklar og glæsilegar og minna um margt á borg eins og t.d. Moskvu. Glæsileg kirkja var skoðuð, en samkvæmt gestgjöfunum sem sjá um liðið, stóð upphaflega til að þetta yrði pýramýdi en þegar spánverjar komu var þessu snarlega breytt í kirkju. Óperuhúsið hér í Mexíkóborg er einnig mjög glæsilegt þó ekki líkist það mikið því tónlistarhúsi sem er í byggingu við Miðbakkann í Reykjavík. Eftir labbitúr í miðbænum hélt liðið aftur upp í rútu og skoðaði útimarkað sem var stutt undan og síðan var haldið á ítalskan veitingastað þar sem menn tóku hraustlega á því sem á borð var boðið.

Ferðalög innan borgarinnar taka oft töluverðan tíma sérstaklega og þá sérstaklega á álagstímum. Sem dæmi má taka er að fimmtán kílómetra ferðalag tók klukkustund einn daginn. Það getur þvi teygst úr þegar  „skreppa“ á í bæinn eða þegar ferðast er á leiki og æfingar. Sem betur fer er þó ekki svo langt ferðalagt milli hótels og skautasvells.

Daginn eftir var hefðbuninn leikdagur og því allt í fastari skorðum. Sergei ákvað að sleppa æfingu og leyfði leikmönnum þess í stað að slappa af og hvílast. Suður-Afríkumenn voru mótherjarnir og einsog sjá má hér og þar á vefnum var þetta leikur sem íslenska liðið var allan tímann með stjórn á. Að leik loknu var farið beint upp á hótel og beðið eftir kvöldmat. Eftir hann sprelluðust leikmenn smá stund. Þeir nýliðar sem vildu klippingu fengu hana en öðrum var sleppt. Menn fóru svo að týnast í háttinn um og uppúr ellefu og vonandi hafa menn sofið vel. Leikurinn sem sker úr um hvort liðið fer upp er framundan og mikilvægt að allir leikmenn mæti tilbúnir í hann.

Leikurinn hefst klukkan 01.30 aðfaranótt sunnudagsins og hér má finna tengil á leikinn á netinu.

Kveðja frá Mexíkó.