Ferðapistill frá Mexíkó 3. hluti

Lífið gengur sinn gang hérna í Mexíkóborg og okkar menn bara sáttir við lífið og tilveruna. Ræst var uppúr klukkan sex á þriðjudagsmorgninum því fyrirhuguð var skoðunarferð í pýramýda. Pýramýdar þessir eru um 1500 ára gamlir og voru byggðir af Aztekum. Þrátt fyrir að menn væru ræstir snemma voru þeir óvenju hressir í morgunmatnum og stuttu síðar var stigið út í rútu. Ferðalagið gekk ágætlega, umferðin var þægileg og sáust fátækraþorpin sem byggð voru í hlíðunum vel. Auk þessarra stórfenglegu pýramída sem var gengið uppá voru þarna ógrynni af sölumönnum og stóð kaupgleði íslenskra drengja ekki á sér. Aðstoðarþjálfarinn lenti þó í minniháttar hremmingum þegar hann hugðist kaupa sér minjagrip. Þrátt fyrir að vitni væru að því að hann rétti sölumanninum peninga tók sölumaðurinn skyndilega upp á því að halda öðru fram og kvartaði sáran. Að smá stund liðinni gaf hann sig þó enda mættur fjöldinn allur af leikmönnum til að athuga hvað væri í gangi. Eftir ferðina var haldið heim á hótel og gert klárt fyrir æfingu sem var að þessu sinni klukkustundarlöng einsog alltaf á frídögum. Eftir æfinguna var frjáls tími. Hluti fararstjórnar fór í skoðunarferð um bæinn en leikmenn héldu sér mest á hótelinu. Um kvöldið var boðið upp á hamborgara í kvöldmat. Yfirleitt slá leikmennirnir ekki hendinni á móti slíkum kostamat en að þessu sinni féll matreiðslan í grýttan jarðveg.
Miðvikudagurinn rann svo upp og þar sem var um leikdag að ræða var allt í föstum skorðum. Írar sem voru andstæðngar okkar að þessu sinni mættu með vængbrotið lið til keppni. Leikirnir tveir sem þeir höfðu leikið áður en þeir mættu okkur höfðu kostað þá töluvert af meiðslum enda mannskapurinn þeirra trauðla í formi til að taka þátt í hörku hokkíleikjum.
Menn fóru því rólega inn í leikinn en ljóst var frá byrjun hvort liðið færi með sigur af hólmi. Írarnir voru þó bara nokkuð ánægðir með sitt að leik loknum því að þessu sinni hafði engin meiðst hjá þeim. Sergei fannst leikmenn greinilega ekki hafa hreyft sig nóg í leiknum því eftir leikinn fyrirskipaði hann fimm hringja „Burger King“ hlaup. Nafn hlaupisins er dregið af Burger King stað sem er nálægt skautasvellinu og notaður er til viðmiðunar. Eftir hlaupið fengu menn sér súrefnisskammt en Vignir læknir hefur skammtað súrefni á leikmenn frá því að mótið hófst.  Í stað þess að fara á hótelið í mat var farið í „mollið“ í  „búffei“ og að þessu sinni fór allur mannskapurinn á sama staðinn. Að þessu sinni fékk Steindór afmælissönginn, þrátt fyrir ekkert afmæli, og leikmenn klöppuðu hressilega á meðan starfsfólkið söng. Eftir mat var haldið aftur á skautasvellið til að sjá leik Suður-Afríku og Mexíkó. Horft var á síðustu tvær loturnar en leikurinn var lítið spennandi og Mexíkanar töluvert sterkari á svellinu.
Flest allir leikmenn eru við hestaheilsu þó einn og einn hafi fengið magakveisu sem verður bara að teljast eðlilegt.

Morgundagurinn er frídagur með smá æfingu rétt fyrir hádegi.

Kveðja frá Mexíkó.