Ferðapistill frá Mexíkó 2. hluti

Stopulir eru  pistlar vorir frá Mexíkó. Bæði er mikið að gera en svo er netsambandið mjög svo stopult en virkar einna best þegar ekkert lið er á hótelinu.

Segja má að nú sé íslenska liðið komið í mótsrútínu. Það er vaknað, borðað, æft, leikið og sofið en sem betur fer með smá upplyftingu inn á milli.

Eftir æfingu í gær sem gekk ágætlega var farið í mat og síðan hafði þjálfarinn skipulagt ferð í garð ekki svo langt frá. Ferðin var hugsuð til að menn gætu ferskað upp á lappirnar og haft eitthvað við að vera Garður þess var svona stækkuð mynd af Fjölskyldu og húsdýragarðinum í Laugardal og menn skemmtu sér ágætlega við að skoða  m.a. slöngur og smærri skorkvikindi.

Eftir stutt stopp á hótelinu var síðan haldið á setningarathöfn mótsins. Tímaskyn heimamanna er svosem ekkert að þvælast fyrir þeim en setningara hófst um hálftíma á eftir áætlun. Á eftir var horft á fyrstu lotu í leik heimamanna og Ísrael. Sú lota var æði skrautleg þar sem ísraelsmenn áttu fimm skot á mark og uppskáru þrjú mörk. Íslensku leikmennirnir eru sérstaklega ánægðir með einn hlut í skautahöllinni en það er framleiðsla á úrum þar sem hann má sína eigin úrskífu. Æði margir hafa því eignast ný úr í ferðinni enda verðið viðráðanlegt. Að lokum var brunað heim á hótel í síðbúinn kvöldmat og háttinn enda leikdagur framundan.

Leikdagurinn var nokkuð hefðbundinn frameftir degi. Borða og æft og síðan mættu menn í leikinn uppáklæddir og staðráðnir í að gera það besta. Stórsigur vannst, þ.e. okkar menn skoruðu tólf mörk gegn engu ísraela. Flottustu tilþrif leiksins átti varnarmaðurinn Steindór Ingason þegar hann keyrði fullkomlega löglega á einn andstæðinginn. Afleiðingarnar urðu þær að ísraelinn rúllaði yfir battann og ofan í leikmannabekk íslenska liðsins. Maður leiksins var valinn Sigurður Reynisson.

Eftir leik var ákveðið að borða ekki á hótelinu heldur farið í „mallið“ og þar deildu menn sér niður á veitingastaði eftir því hvar áhuginn lá. Flestir fóru á stóran stað með „búffei“ og átu nægju sína. Kári Guðlaugsson fékk grikkinn í það skiptið. Rétt áður en máltíðinni lauk fékk hann afmælissöng frá liðsmönnum og flottan hatt frá staðnum á meðan sungið var. Kári á reyndar ekki afmæli um þessar mundir og „coolið“ hjá honum hvarf í smá stund en náði þó fljótlega fyrri styrk sínum.
Rúmið beið flestra, fararstjórinn átti þó eftir fund og aðrir í fararstjórn smá undirbúning fyrir næsta dag. Búið er að plana ferð í pýramýda eldsnemma en við segjum nánar frá því síðar.

Kveðja frá Mexíkó