Ferðapistill frá Mexíkó 1. hluti

Nú þegar mannskapurinn hefur komið sér fyrir og búið er að fara á helstu fundi vegna mótsins gefst loksins tími til að setjast niður og skrifa smá ferðapistil. Á tímum nýmóðins fjarskiptatækni eru sjálfsagt ýmsar fréttir komnar heim en gaman er að halda sögunni til haga.
Hjá þeim sem þetta skrifar hófst ferðalagið við Íþróttamiðstöðina í Laugardal með fimm leikmönnum frá Akureyri og einum lækni. Næsti ferðapunktur sem er þess vert að minnast á gerðist einungis þrjátíðu mínútum síðar, þegar bíllinn stöðvaðist á Reykjanesbraut vegna olíuleysis, en ég hef mér það til afsökunar að langt er síðan ég lauk námi í Vélskólanum. Fall er fararheill....... eða þannig.

Frá því daginn áður hafði skrifstofa ÍHÍ verið í sambandi við ferðaskrifstofuna sem sá um bókun miðanna og eitthvað erfiðlega gekk að fá farmiðana á seinni legginn gefna út. Þ.e. ferðalagið milli New York til Mexíkó borgar. Allan morguninn á brottafaradegi var verið að vinna í málinu með frekar litlum árangri og um hádegi fór ferðaskrifstofan að tala um að einhverjar breytingar þyrfti að gera.
Á meðan liðið var síðan að tékka sig inn í Keflavík var byrjað að búa til vara plan enda líkleg niðurstaða að 16 úr hópnum héldu upphaflegri áætlun en 10 fengju breytta. Það kom síðan í ljós í New York að þetta var raunin. Fararstjórn ákvað því að skipta sér upp í tvo hópa. Sergei, Valerie og Vignir læknir tóku að sér hópinn sem hélt áfram en Hallmundur, Gunnar aðstoðarþjálfari og Maggi tækjastjóri tóku hópinn sem varð eftir. Hótel hafði verið bókað fyrir eftirálegukindurnar og  gekk bara nokkuð vel að komast á það með lest og síðan „pick up“ frá hótelinu. Bílstjórinn á „pick up“ bílnum átti sviðið, við urðum reyndar ekki bensínlausir, en komust að því að það er ekki einfalt mál að setjast í bílstjórasætið. Við reyndum þó að hlægja ekki of hátt. Að sjálfsögðu fannst bókunin á hótelið ekki en þetta hafðist með smá þolinmæði. Einhverstaðar las ég um daginn að hjá túristum tróni New York á toppnum sem mestu dónarnir en við erum diplómatar og segjum að þeir séu sérstakir.

Sergei hópurinn komst í sitt flug, því seinkaði reyndar um klukkustund en eftir komuna þangað voru þeir komnir inn á mótsrútínu. Ferðalagið hjá kindunum sem eftir urðu gekk líka vel það sem eftir var og um miðjan dag sameinaðist hópurinn á hótelinu allir glaðir og kátir. Umferðin hér er all sérstök og hún er líka geypilega mikil. Formúluakstur er tíðkaður nema hvað bílarnir hérna hafa það um fram formúlubíla að í þeim er flauta og stefnuljós. Eftir óvísindalega könnun held ég það megi fullyrða að flautan er töluvert vinsælli. Annað sem vekur eftirtekt er að skipulags og byggingaryfirvöld virðast mjög svo frjálslynd. Í það minnsta miðað við á Íslandi. Maður hefur það svolítið á tilfinningunni að settur sé upphafs- og endpunktur á göturnar en svo skipti ekki öllu hvað kemur á milli þeirra.

Eftir að hópurinn var allur kominn saman fór fararstjóri í að undirbúa sig fyrir fundi sem hann átti að mæta á. Sergei reddaði hinsvegar rútu í „mallið“ og eins og allir vita sem farið hafa í svona ferðir þá klikka þær ekki.  Fararstjórn fór síðan á fund um kvöldið en Maggi tækjastjóri var skilinn eftir sem barnapía.  Ekki reyndi mikið á píuna því flestir leikmenn voru svo þreyttir að þeir fóru bara í rúmið.

Einsog áður sagði er rútínan komin á og uppúr hádegi á staðartíma er æfing. Liðið náði ekki að æfa saman í gær vegna flugvandræðanna en sem betur fer fékkst í gegn á fundi í gær að æfingin yrði 60 mínútur í stað 30 mínútna einsog upphaflega planið gerði ráð fyrir.

Kveðjur frá Mexíkó

Ps. Við höfum ekki enn fundið góða internettengingu svo að engar myndir koma til að byrja með.