Ferðadagbók U20 til Mexíkó - 1.færsla

Það voru sælir leikmenn og starfslið U20 ára landsliðsins sem mættu á flugstöð Leifs heppna um miðjan dag á miðvikudag. Framundan var langt og erfitt ferðalag til Mexíkó borgar þar sem heimsmeistaramótið fer fram að þessu sinni.

Hópurinn millilenti í New York þar sem Magnus þjálfari og Nicolas Jouanne komu til liðs við hópnn, Magnus frá Svíþjóð og Nico frá Kanada. Í Mexíkóborg tók á móti hópnum mildur fimmtudgagsmorgun og hann náði loks á áfangastað, Hótel Royal Pedregal, um níu á staðartíma eftir um sólarhringsferðalag. Dagurinn fór að mestu í að koma sér fyrir, skoða leikstað og allar aðstæður og fyrst og fremst að halda sér vakandi. Enginn fékk mikla hvíld nema Nicolas sem á við smávægileg meiðsli að stríða á fingri og er undir öruggum höndum Gauta læknis. Magnus og Gauti yngri voru síðan með fyrstu æfingu strákanna um kvöldið og það voru því örþreyttir leikmenn þjálfarar og fararstjórar sem fóru í háttinn á fimmtudagskvöld. Föstudagurinn heilsaði hópnum með glampandi sól og hita og leikmenn nutu veðurblíðunnar. Mótið hófst síðan með þremur leikjum en Ísland sat hjá í fyrstu umferð og gat því notið góðs af því að sjá hin liðin spila fyrsta daginn. Liðið tók góða æfingu um morguninn, sem Nicolas tók sömuleiðis þátt í og virtist á góðum batavegi. Í dag laugardag kl. 17 á staðartíma (23.00 heima) er síðan fyrsti leikur Íslands á mótinu á móti Búlgaríu sem unnu fyrsta leik mótsins gegn Nýja Sjálandi í gær nokkuð sannfærandi.

Arnar Þ. Sveinsson fararstjóri