Dómarar á ferðinni

Þrír dómarar sem skráðir eru hjá ÍHÍ og IIHF fengu úthlutað erlendum verkefnum á nýhafinni leiktíð.

Fyrsta verkefnið er nú strax í byrjun nóvember en þá mun Óli Þór Gunnarsson halda til Tallinn í Eistlandi og dæma í undankeppni Ólympíuleikanna. Þetta er annarr riðillinn sem leikinn verður þessa helgi en hinn riðillinn fer fram á Spáni en þar mun karlalandslið Íslands eimitt taka þátt. Rétt einsog þar verða fjögur lið í Tallinn en keppnin fer fram á þremur dögum.

Í desember er komið að Ingibjörgu G. Hjartardóttir en hún heldur til Sofíu í Búlgaríu. Þar verður haldin forkeppni fyrir 2. deild kvenna með þátttöku Rúmena, Hong Kong, Suður-Afríku og heimamanna.

Þriðji í röðinni er síðan Sindri Gunnarsson sem heldur til Brasov í Rúmeníu til að dæma 2. deild HM sem skipað er leikmönnum 18 ára og yngri. Meðal liða í mótinu má nefna Litháen, Bretland og Pólland.

Útnefningarnar eru gleðiefni fyrir íþróttina og ekki síst dómarastéttina.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH