Dómarar

Það er sama hvert litið er í þjóðfélaginu, flest allir hafa skoðanir dómum og dómurum. Í fjölmiðlum er fjallað um og skrifaðar langar greinar um dóma sem falla í héraðs- og hæstarétti, og sýnist sitt hverjum. Vertíðin í efstu deildinni í fótbolta hér heima hófst með því að leikurinn var orðinn algjört aukaatriði en deilur við og um dómara var orðið aðalatriðið. Því þarf stundum ekki að koma á óvart að menn hugsi sig tvisvar um áður en þeir taka að sér að gerast dómarar. Það verður hinsvegar að gera þá kröfu á þá sem gagnrýna dómara, hvort sem er í hinu daglega lífi eða íþróttadómara, að þeir hafi gagnrýni sýna málefnalega.

Vonandi eru samt áfram til einstaklingar sem hafa áhuga á að taka að sér dómgæslu, því eins og margoft hefur verið sagt áður, án dómara verður enginn leikur. Það er því mikilvægt að leitað sé statt og stöðugt að áhugasömum mönnum sem gætu hugsað sér að dæma leiki í íshokkí. Íshokkídómari, rétt einsog leikmaður, verður ekki skapaður á einum degi.

Á síðasta keppnistímabili ákvað dómaranefnd að prófa nýjar leiðir sem vonandi á eftir að auðvelda nýliðum í dómarastétt að komast inn í starfið. Leiðin felst í því að setja mjög vanan dómara á línuna hjá nýliðanum. Með þessu móti hafði nýliðinn stuðning frá vönum dómara allan leikinn og getur fengið frá honum punkta, jafnt um það sem hann er að gera rétt eða rangt. Að sjálfsögðu verður þessu ekki komið við í öllum leikjum sem hinn nýi dómari dæmir, en æskilegt er að þetta gerist alltaf öðru hvoru, því þannig má flýta framförum og íþróttin fær um leið betri dómara.

Dómaranefnd ÍHÍ leitar nú að einhverjum áhugasömum, hvort sem er konu eða karli, sem áhuga hefur á að feta þessa braut. Að sjálfsögðu er ekki verið að tala um að kasta mönnum beint í djúpu laugina heldur er um að ræða dómgæslu í yngri flokkum.

Áhugasamir endilega hafið samband við ihi@ihi.is eða einhvern í dómaranefnd.

HH