Dómarar

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að því að fjölga þeim verkefnum fyrir íslenska dómara í íshokkí og þá sérstaklega horft á keppnir sem fara fram erlendis.

Nú hefur borist staðfesting frá IIHF að þrír íslenskir dómarar hafa verið settir á mót sem eru á þeirra vegum. Allir þessir dómarar eru að þreyta frumraun sína á hinum alþjóðalega vettvangi.

Í lok október heldur Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir til Riga í Lettlandi þar sem hún mun verða línudómari á European Women's  Champions Cup (EWCC). Steinunn hefur um árabil leiki með meistaraflokki Bjarnarins en hóf feril sinn með    Skautafélagi  Akureyrar. Steinunn á einnig að baki leiki með landsliði kvenna.




Í lok nóvember heldur Ingibjörg Guðríður Hjartadóttir síðan til Asiago á Ítalíu þar sem hún mun verða línudómari í undankeppni 1. deildar U18 ára heimsmeistaramóts kvenna. Rétt einsog Steinunn leikur Ingibjörg með Birninum ásamt því að hafa leikið með landsliðinu.

 

Í apríl á næsta ári mun Orri Sigmarsson stíga á ísinn en hann mun dæma í 2. deild A-riðils á heimsmeistaramóti karla en mótið fer fram einsog vonandi flestir vita í Reykjavík. Orri lék um árabil með Skautafélagi Akureyrar en hefur nú alfarið snúið sér að dómgæslu.

 

Ekki er ólíklegt að verkefnunum eigi eftir að fjölga þegar á líður tímabilið en einnig er vonast til að þettta sé bara byrjunin á því sem koma skal.

HH