Dómaranámskeið

Nú er vetrarstarfið að hefjast hjá dómurum. Þetta árið verður dómaranefnd ÍHÍ fyrr á ferðinni en venjulega og reyna á að halda gott dómaranámskeið í byrjun leiktíðar. Á fimmtudaginn, þ.e. 6. september, verður námskeið fyrir þá dómara sem hafa verið að dæma í meistaraflokk. Vonast er til að með þessu námskeiði nái dómararnir að þróa sig í dómgæslunni til að verða enn betri dómarar.  Kennari á námskeiðinu verður reyndur danskur dómaraþjálfari að nafni Claus Fonnesbech Christensen.  Gert er ráð fyrir að fljótlega verði síðan haldið námskeið fyrir byrjendur.
 
Fyrsti hluti námskeiðsins hefst kl. 19:00 á fimmtudaginn 6. sept og tekur u.þ.b. fjórar klukkustundir. Námskeiðið verður haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, þ.e. gengið er inní sömu byggingu og ÍHÍ er í en strax beygt til hægri og upp á 3ju hæð.

Í bóklega hlutanum verður farið yfir ýmis atriði eins og samvinnu dómara, framkomu, áherslur í leikreglum og túlkanir.  Í lokin verður reglupróf að dönskum hætti.

 
Á föstudags og laugardagskvöldið er annar hluti námskeiðsins, þ.e. dómgæsla á hraðmótinu í Egilshöll.  Claus mun fylgjast með dómurunum og ráðleggja hverju dómaratríói fyrir sig, benda þeim á hvað er vel gert og hvað má betur fara.
 
Á sunnudag er síðan gert ráð fyrir síðasta hluta námskeiðsins, tími og staðsetning verður tilkynnt á námskeiðinu, þar sem sá fundur helst í hendur við ritaranámskeið sem verður einnig á vegum ÍHÍ þennan dag. Hvað sem því líður þá verður þetta klukkustunda langur fundur þar sem Claus fer yfir yfir það í heild hvernig við stöndum okkur og hvað má betur fara í heildina.  Að lokum verða umræður og fyrirspurnir.

Hér er náttúrulega um frábært tækifæri fyrir dómara að ræða og því vonast eftir að sem flestir þeirra sjái sér fært að mæta.

Myndina tók Margeir Örn Óskarsson

HH/JHR