Dagur 6 - U18 í Serbíu

Dagurinn byrjaði nú ekki skemmtilega í morgun. Bjössi, Andri, Siggi og Daníel höfðu verið ælandi og fleira alla nótina. Þeir voru algjörlega orkulausir og Daníel komst ekki framúr. Hinir treystu sér í morgunmat en gátu lítið borðað. Ekki leit þetta vel út fjórir leikmenn úr fyrstu tveim línunum virtust ekki hafa orku til að taka þátt í leiknum á móti Spáni.

Haldið var niður í skautahöll með þrjá veika og undirbúningur fyrir leikinn hafinn. Tveir tóku þátt í upphitun fyrir leik en einn lá á gólfinu í búningsklefanum. Það er ekki laust við því að litla stress hjartað hafi slegið fjöldann allan af auka slögum hjá mér. En strákarnir sýndu mikinn hug og dressuðu allir fyrir leikinn og mættu á bekkinn. Ég hafði ekki mikla trú á því að við myndum vinna Spánverjana en var vongóður um að við myndu ekki tapa stórt fyrir þeim. Ég ræddi við fararstjóra Spánverjanna og sagði honum að 4 BESTU leikmennirnir okkar væru úti og gætu varla spilað. (Smá von um að þeir myndu þá vanmeta okkur og halda að þetta væri bara lautarferð)

Strax í upphafi fyrstu lotu kviknar vonarneisti. Allir sem einn mættu ákveðnir á ísinn og voru gríðarlega vinnusamir. En á níundu mínútu skoruðu Spánverjar sitt fyrst mark.  Það virtist ekki slá okkar menn út af laginu og sex mínútum síðar jafnar Brynjar Bergmann leikinn með stoðsendingu frá Birni Sigurðarsyni. Var farið inn í leikhlé með stöðuna 1-1 og okkar strákar í góðum gír. Góður andi í strákunum eftir leikhlutann og var lagt upp með plan þar sem við myndum hefja annan leikhluta í Power Play þar sem einn leikmanna Spánar var eitthvað pirraður í lok fyrsta leikhluta og Kross checkaði einn af okkar mönnum.

Annar leikhlut hófst og ákvað þá Andri að halda einhverjum Spánverja og var vísað í boxið (ég held að honum hafi bara verið bumbult og þurft að taka smá pásu). Á þrítugustu mínútu skora svo Spánverjar við mikinn fögnuð spænska stuðningsmannahópsins. En okkar strákar misstu ekki móðinn og rúmri mínútu síðar jafnar Brynjar Bergmann metin aftur og nú án stoðsendingar. Algjör snilld!!! Tæpri mínútu síðar skorar Ingþór Árnason sitt fyrsta landsliðsmark með stoðsendingu frá Kára Guðlaugssyni og kom okkar mönnum í 3-2. Á þessu tímapunkti skipta Spánverjar um markmann og fjórum mínútum síðar jafna Spánverjar metin. Ekki leið nema rétt mínúta þar til Sigurður Reynisson kemur okkur yfir aftur með stoðsendingu frá Aroni Knútssyni og staðan orðin 4-3. Á sama tíma var leikmaður Spánverja númer 9 sem var búinn að vera okkur gríðarlega erfiður og þeirra besti maður með munnsöfnuð við dómarann og fær tíu mínútna dóm fyrir. Frábært að missa hann úr spilinu í fyrstu tíu mínúturnar af þriðja leikhluta.

Góður andi í drengjunum í öðru leikhléi og ég er ekki viss um annað en að spila hokkí hafi lækningarmátt (ætli Dr. Jón viti af þessu) þar sem þeir virtust allir vera að braggast við meiri átök.

Nú hefst þriðji leikhluti og ekki hægt að komast hjá því að vera á mörkum þess að fá taugaáfall. Spánverjar á þriðju mínútu jafna metin eina ferðina enn. En strákarnir okkar héldu þétt á spöðunum og spiluð gríðarlega skynsamlega og Spánverjarnir fóru að pirrast og missa menn í boxið. Á fimmtugustu og sjöttu mínútu missa þeir leikmann í boxið fyrir að halda í okkar mann. Þá kallar Sergei Zack á leikhlé og skipuleggur með liðinu hvernig tækla skuli Power Playið. Það liðu inna við 10 sekúndur þegar Andri Helgason setur hann inn með flottu skoti frá bláu línunni með stoðsendingu frá Brynjari Bergmann og Birni Sigurðarsyni og við það misstu Spánverjar sig og voru með fjór í boxin það sem eftir var leiks. En þeir Spánverjar sem voru eftir á svellinu sótt að okkur af mikilli hörku og var mér ekki orðið sama á tímapunkti alveg hættur að geta skrifað niður stattið fyrir Sergei og engin not af mér í því síðustu fimm mínúturnar. Hef ekki hugmynd um hverjir unnu face off og þessháttar það sem eftir var af leik. Loksins lauk leiknum og við tryggt okkur sætið í 2. deild B fyrir næsta heimsmeistaramót sem er gríðarlegur árangur fyrir okkur. Ég vona svo sannarlega að það hafi enginn verið með upptökuvél í stúkunni þegar eini íslendingurinn þar trylltist. Ekki vildi ég vera mamma hans og þurfa að horfa á það.

Að hlusta á þjóðsönginn okkar í annað sinn á mótinu var einstaklega sætt á þessum tímapunkti.

Strákarnir voru skiljanlega í sáttir við árangurinn en samt voru þeir fókuseraðir og yfirvegaðir yfir árangrinum. Sýndu frábæran þroska á svellinu og eftir leik. 
Síðan var haldið uppá hótel í hádegismat og fengu þeir síðan lausan tauminn til kvöldverðar klukkan 20:00 og aftur lausan tauminn til tíu um kvöldið. En haldinn var fundur í svítunni hjá Sergei þar sem farið var yfir nokkur smáatriði og strákarnir minntir á að flýta klukkunni um einn klukkutíma. Sumir ekki sáttir yfir því að tapa einum tíma í svefn.

En það var ánægður hópur sem fór í háttinn þetta kvöld.

Kveðja frá Serbíu
Stefán Örn
Farastjóri