Dagur 3 í Tallinn

Bekkurinn hjá íslenska liðinu
Bekkurinn hjá íslenska liðinu

Dagur 3 í Tallinn

Þá er degi þrjú lokið hér hjá okkur í Eistlandi. Dagurinn byrjaði snemma, morgunmatur kl. 7:00.  Að því loknu smöluðum við hópnum upp í rútu og rúlluðuðum á æfingu dagsins sem gekk vel. Engin meiðsli að hrjá leikmenn og strákarnir sprækir. Hjalti gat loksins æft með liðinu þar sem taskan skilað sér loksins.

Því næst brunuðum við aftur upp á hótel, skelltum okkur í hádegismat og skiptum í föt áður en stefnan var tekin aftur í höllina. Okkar drengir bera af í klæðaburði það fer ekkert á milli mála. Ykkur að segja finnst mér þeir líka bera af í allri framkomu og kurteisi....engin hlutdrægni í gangi hér á ferð.

Með nútíma tækni ættu flestir að vita hvernig leikurinn endaði. Fyrsti leikhluti gerði í raun út um leikinn. Kínverjarnir (stærsta þjóð veraldar) settu 6 mörk á okkur og þetta leit mjög illa út.  Villi og Ville...já einmitt, aðstoðarþjálfarinn heitir Ville og er finnskur. Hentar vel fyrir strákana að þjálfararnir bera svipuð nöfn. Ville er eðal drengur og flinkur þjálfari. En semsagt Villarnir töluðu yfir hausamótunum á strákunum og það var eins og nýtt lið kæmi inn á völlinn.  Allt annað að sjá til þeirra og náður þeir fljótlega að minnka muninn. Annar leikhluti endaði 1-1.
Sama var uppi á teningnum í þriðja leikhluta og endaði hann 3-2 og niðurstaðan 10-3 tap.Strákarni sýndu að þeir geta miklu betur ef þeir halda haus í þrjá leikhluta. Við eigum ennþá 3 leiki eftir svo það getur allt gerst.

Það vildi svo óheppilega til að Aron Hákonarson handleggsbrotnaði í leiknum. Jón Ragnar læknir liðsins brást við eins og fagmaður....eins og hann jú er auðvitað, enda bráðalæknir á LSH.
Aron lenti í samstuði og það heyrðist smá öskur frá honum og hann féll í svellið. Stóð svo upp og skautaði á bekkinn og sagði bara við Jón lækni „Ég er brotinn.“  Og það fór ekkert á milli mála því miður. Það var í raun ótrúlegt hvað hann bar sig vel og greinilega hörku nagli.
Hann var fluttur á sjúkrahús hér í bæ þar sem reynt var að gera að honum. Ekki gekk það nú alveg nógu vel. Síðar í kvöld kom í ljós eftir að Jón hafði ráðfært sig við bæklunarlækni á Akureyri að hann þarf að fara í aðgerð. Aron er því á leið heim í fyrramálið í öruggri fylgd Hallmundar framkvæmdastjóra og undirgengst aðgerð á Akureyri til að tryggja að brotið jafni sig vel. Það verðu leitt að sjá á eftir þessari hetju.

Eftir kvöldmat var svo liðsfundur og svo drifum við okkur enn og aftur í höllina til þess að horfa á Eistland rúlla yfir Belgíu.

Á morgun er frídagur, þannig að við getum sofið út til kl. 9:00.  Ég sendi frá mér frekari umjöllum um morgundaginn síðar.

Kv, Árni Geir