DAGBÓK KVENNALANDSLIÐSINS - 5. FÆRSLA

Dagur 5

HVÍLÍKUR LEIKUR !!!!!!!

Stelpurnar okkar áttu stórleik í gær.  Hvílíkur karakter og leikgleði hjá þessu liði!

Dagurinn hjá þeim byrjaði bara á rólegur og afslappaður, svona eins og hægt var miðað við að Spánarleikur var um kvöldið.
Þær skelltu sér snemma í morgunmat og svo á æfingu sem gekk mjög vel hjá þeim.  Komandi leikur var ræddur og möguleikar á sigri – þær hafa þó aldrei unnið Spán þannig að það voru blendnar umræðurnar hjá þeim.

Eftir hádegismat var slökun, spjall og pepp í gangi og allar klárar og undirbúnar fyrir leikinn.   Rölt var svo í höllina í góðu veðri og mórallinn flottur.

Svo hófst fjörið!  Mikið gekk á í leiknum meira og minna allan tímann.  Það var svona pínu eins og dómararnir hafi farið „veggmeginn“ framúr þegar þeir vöknuðu um morguninn því dómgæslan var svolítið sérstök hjá þeim og bitnaði það svona nokkuð jafnt á báðum liðum.  Ég persónulega var nú ekki alveg að skilja alla dómana sem dæmdir voru – en það kannski ástæða fyrir því að ég er fararstjóri en ekki í röndóttri treyju á svona móti.

Stelpurnar okkar lentu strax í nokkrum mótbyr í fyrstu lotu og voru svona pínu eins og þær hefðu ekki alveg trú á að þær gætu þetta.  Það var svona aðeins – „en þær hafa alltaf unnið okkur“ móment sem átti sér stað í klefanum en það var tekið á því í leikhlé.

Eftir tvær lotur var staðan 3-0 sem er erfitt að fara af stað með í þriðju lotu en líka mjög erfitt að halda fyrir það lið sem er yfir.
Flosrún skoraði svo þegar um 5 mín voru eftir en þær Spönsku komu fljótt til baka og skoruðu sitt fjórða mark, staðan 4-1.

Guðrún Marín fær á sig dóm og ég viðurkenni að þá fór nú aðeins um mína þar sem ég sat ein í stúkunni með íslenska fánann að vopni EN ég hafði samt alltaf trú á að tapið yrði ekki þrjú mörk.
Eftir tvær mínútur í boxinu, kemur Guðrún Marín inn á frábæru augnabliki, fær pökkinn og allt í einu er staðan 4-2 J SNILLD

Tveggja marka munur þegar um tvær mínútur voru til leiksloka. Spánverjar margir hverjir farnir að fagna í stúkunni þegar Belgísku stelpurnar stóðu upp og byrjuðu að hvetja Ísland – ekkert smá magnað að fylgjast með þeim. 
Íslensku Valkyrjurnar okkar, þrjóskari en nokkru sinni, ákveðnar í að láta heimakonur finna örlítið meira fyrir sér og þeim tókst það svo sannarlega.
Þær skora þriðja markið og svo kom það fjórða á loka sekúndunni. Dómararnir þurftu að „funda“ ásamt tímaverði og niðurstaðan – markið stóð J
Áhorfendur voru ekki ýkja glaðir með þessa niðurstöðu en það skipti ekki máli.  Ég var rokin á fætur, sveiflandi fánanum okkar og ekkert smá stolt af þessum snillingum – svei mér ef mér leið ekki eins og ég væri rúmir tveir metrar á hæð!

Ekkert mark var skorað í framlengingu þannig að í annað sinn á þessu móti var það vítakeppni hjá þeim. Því miður féll hún ekki með okkur i þetta sinn EN við náðum nú samt einu stigi.

Þrátt fyrir „tap“ þá voru það stoltar íslenskar stelpur sem gengu til búningsklefa eftir leik – þær eru alveg ótrúlega flottar STELPURNAR OKKAR.

Kv.

María Stefánsdóttir - fararstjóri