Dagbók kvennalandsliðs - 1. færsla

Þá er loks komið að ferðadegi

Norðanstelpur þurftu að flýta för sinni suður yfir heiðar um einn dag þar sem veðurspá var slæm. Þær gistu á Cabinn eina aukanótt en fyrir vikið náði hún Ingibjörg okkar að græja fyrir þær ís í Egilshöll þannig að þær „græddu“ eina aukaæfinguKl. 04.40 á miðvikudagsmorgninum var svo lagt af stað í Keflavíkur. Að sjálfsögðu var flugið á réttum tíma frá Íslandi þannig að í loftið vorum við komin 08.15.

Millilentum í London - Gatwick og þurftum að bíða þar í nokkra tíma sem var í raun eins gott þar sem hokkítöskurnar okkar voru ekki alveg þær vinsælustu.  Í fyrstu vildu þeir meina að það ætti eftir að greiða fyrir allan farangur og hver taska kostaði 45 evrur. Við vorum nú ekki alveg sáttar við það og eftir hringingar heim og pínu „þref“ á vellinum gekk þetta upp en þessi blessaði herramaður sem við ræddum við var harður á að öll yfirvigt yrði greidd á staðnum. Svo hófst gleðin, að tékka okkur inn.  Karitas kom fyrst með markmannstösku sem var laaangt yfir þyngd. Hún náði að skorða töskuna svona snyrtilega á bandinu, sem var mjög þröngt, þannig að þyngdin lá nokkuð á „hliðarveggjunum“ og fyrir vikið vigtaðist taskan ekki nema um 20kg.  Stelpurnar  voru fljótar að læra og engin yfirvigt var greidd í þetta skiptið J
Frá London var flogið til Barcelona og fyrir mitt leiti þá var þetta illa „malbikuð“ loftleið þangað. Gamall Landrover á sveitavegi hefði frekar orðið fyrir valinu hjá mér, en þetta hafðist nú allt.  Við hittum svo stelpurnar þrjár sem komu frá Svíþjóð og Noregi þannig að liðið var loks allt komið saman.   Við tók rútuferð í um 5 tíma og voru það þreyttir ferðalangar sem komu á hótelið um klukkan eitt eftir miðnætti.
Hótelið er flott og fer vel um alla hér og skautahöllin er frábær.

María Stefánsdóttir - fararstjóri.