Dagbók fararstjóra – 2

Sarah Smiley fyrirliði maður leiksins í dag
Sarah Smiley fyrirliði maður leiksins í dag

Mánudagur 1.apríl  
Morgunmatur kl. 7, æfing og hádegismatur kl.10 var undirbúningur dagsins fyrir fyrsta leikinn á HM IIb í Puigcerda á Spáni.  Lars þjálfari er búinn að fara vandlega yfir allar mögulegar leikfléttur og setja upp línur sem ættu að taka á og ná yfirhönd yfir andstæðing dagsins. Tveir af leikmönnum liðsins fara ekki í galla í dag, ein með flensu og ein sökum meiðsla frá æfingu í morgun sem hún verður vonandi búin að jafna sig á fyrir næsta leik, aðrar eru klárar í slaginn.

Suður Afríka – Ísland 1-5

Stelpurnar okkar mættu ákveðnar til leiks og fengu draumabyrjun, náðu inn fjórum mörkum í fyrsta leikhluta en andstæðingurinn einungis einu. Nýliðarnir Kristín Ingadóttir og Thelma María Guðmundsdóttir skoruðu fyrstu mörkin á fyrstu mínútunum og önnur mörk í leiknum skoruðu Birna Baldursdóttir, Sarah Smiley og Jónína Guðbjartsdóttir. Sarah Smiley fyrirliði var valin maður leiksins í Íslenska liðinu. Ítarlegri upplýsingar og tölfræði má finna á heimasíðu mótsins, meðal annars beina atvikalýsingu úr leiknum og svo leikskýrsluna sjálfa.

Þegar leið á leikinn fóru stelpurnar að finna fyrir áhrifum súrefnisskorts en Puigcerda er í eitt þúsund metra hæð, sem þær eru ekki vanar að spila í. Þær hörkuðu af sér og kláruðu leikinn með sóma. Þegar í búningsklefann var komið fóru þær að eiga í vandræðum með öndun, flökurleiki og svimi og fleiri einkenni komu í ljós. Læknirinn frá Króatíu var staddur í námunda við okkur og aðstoðaði hann Tinnu við að hlúa að þeirri sem verst var stödd og kallað var á sjúkrabíl. Sjúkraliðar komu með súrefni og henni var rennt á börum út í sjúkrabílinn. Þegar þar var komið var henni farið að líða betur þannig að ekki kom til ferðar á sjúkrahús. Öðrum liðsmanni sem lá út af með hátt undir fótum, með bláan fölva á kinn, var sinnt af mótslækninum. Báðar þessar stelpur og restin af liðinu jafnaði  sig er leið á daginn. Þetta var óþægileg reynsla fyrir hópinn, sem kemur þó ekki fyrir aftur þar sem búið er að lofa okkur súrefniskút á bekkinn í næsta leik. Þrír leikmenn fengu einnig slæma byltu við árekstra í leiknum, sem þær koma vonandi til að jafna sig til fulls á. Þessi atvik skyggðu því miður eilítið á gleðina yfir sigrinum en þær geta svo sannarlega verið stoltar af vel spiluðum leik miðað við aðstæður.

Íslenska liðið trónir á toppnum eftir fyrsta leikdag en Kórea og Spánn unnu sína leiki einnig. Á á morgun þriðjudag er frí og mætum við svo króatíska liðinu á miðvikudag kl. 11.00 að íslenskum tíma.

Mörk/stoðsendingar
Sarah Smiley 1/2
Birna Baldursdóttir 1/1
Thelma María Guðmundsdóttir 1/0
Kristín Ingadóttir 1/0
Jónína Guðbjartsdóttir 1/0
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir 0/1
Guðrún Blöndal 0/1
Arndís Eggerz Sigurðardóttir 0/1
Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir varði 16 skot í íslenska markinu.
Íslenska liðið fékk á sig 8 refsimínútur en það suður-afríska 14 mínútur.

Kristin_og_Thelma_HM2013

Kvennalidid_HM2013

Kvennalid_Hm2013_Urslit