Björninn - Víkingar umfjöllun

Úr myndasafni
Úr myndasafni

Björninn og Víkingar mættust á íslandsmóti karla í gærkvöld og fór leikurinn fram í Egilshöll. Leiknum lauk með sigri Víkinga sem gerðu átta mörk gegn einu marki heimamanna í Birninum.

Liðin byrjuðu nokkuð varlega og greinilegt að hvorugt liðið vildi taka of mikla áhættu á að lenda undir. Víkingar fengu ágætis möguleika á að skora þegar þeir voru manni fleiri á ísnum en allt kom fyrir ekki og staðan 0 - 0 eftir fyrstu lotu.

Hlutirnir fóru hinsvegar að gerast strax í byrjun annarrar lotu en í skiptingu hjá Bjarnarmönnum komust Víkingar einir gegn markmanni Bjarnarins og Gunnar Darri Sigurðsson afgreiddi pökkinn í netið. Um fimm mínútum síðar kom tveggja mínútna kafli þar sem segja má að Víkingar hafi gert út um leikinn. Þrjú mörk litu dagsins ljós, Ben DiMarco átti tvö þeirra og Andri Freyr Sverrisson það þriðja. Víkingar voru þó ekki hættir og bættu við tveimur mörkum áður en lotan var úti, Ingvar Þór Jónsson og fyrrnefndur Andri Freyr áttu mörkin og staðan orðin 0 - 6 gestunum í vil.

Þriðja og síðasta lotan varð því aldrei mjög spennandi. Víkingar áttu tvö fyrstu mörkin í henni, Jóhann Már Leifsson með það fyrra og Stefán Hrafnsson með það síðara. Ólafur Hrafn Björnsson átti hinsvegar lokaorðið í leiknum þegar hann gerði mark Bjarnarins um miðja lotuna.

Björninn hefur nú eins stigs forystu á toppnum á Víkinga í deildarkeppninni en bæði liðin hafa leikið níu leiki.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Ólafur Hrafn Björnsson 1/0
Birkir Árnason 0/1

Refsingar Björninn: 6 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Víkinga:

Ben DiMarco 2/5
Andri Freyr Sverrisson 2/1
Ingvar Þór Jónsson 1/1
Gunnar Darri Sigurðsson 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/0
Stefán Hrafnsson 1/0
Björn Már Jakobsson 0/1
Rett Vossel 0/1

Refsingar Víkinga: 22 mínútur.

Mynd: Gunnar Jónatansson

HH