Björninn - Víkingar umfjöllun

Úr leik liðanna nýlega
Úr leik liðanna nýlega

Björninn og Víkingar áttust við á laugardaginn í Egilshöllinni og lauk leiknum með sigri Víkinga sem gerðu 4 mörk gegn 3 mörkum Bjarnarmanna. Með sigrinum tryggðu Víkingar sér deildarmeistaratitilinn og jafnfram heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.

Brynjar Bergmann kom Birninum yfir fljótlega í fyrstu lotu en Víkingar svöruðu fljótlega með tveimur mörkum frá Lars Foder og Sigurði S. Sigurðssyni og þannig lauk lotunni, þ.e. staðan var 1 - 2 Víkingum í vil.

Víkingar hófu svo leikinn manni færri í annarri lotu og Bjarnarmenn náðu að færa sér það í nyt og jöfnuðu leikinn með marki frá Daniel Kolar. Rétt fyrir miðja lotuna kom Sigurður Reynisson hinsvegar Víkingum yfir aftur og staðan 2 - 3 þeim í vil að lokinni annarri lotu.

Bjarnarmenn hertu á sókninni í þriðju lotu og um hana miðja jafnaði Hjörtur Geir Björnsson leikinn fyrir Björninn og spennan gríðarleg. Undir lokin lögðu Bjarnarmenn allt í sölurnar til að skora markið sem tryggt hefði þeim sigur. Þeir tóku markmann sinn, Snorra Sigurbergsson útaf en allt kom fyrir ekki og Ingvar Þór Jónsson tryggði Víkingum sigur þegar örskammt var til leiksloka.

Bjarnarmenn voru töluvert sókndjarfari allan leikinn en Víkingar vörðust vel með Ómar Smára Skúlason markmann í banastuði.
Úrslitakeppnin hefst síðan 18 mars nk. á Akureyri og miðað við leiki þessara liða í vetur verður hún bráðfjörug og spennandi.

Að leik loknum tóku Víkingar við deildarmeistaratitlinum og við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með hann.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Daniel Kolar 1/1
Hjörtur Geir Björnsson 1/0
Brynjar Bergmann 1/0
Sergei Zak 0/1
Sigurður Óli Árnason 0/1
Ólafur Hrafn Björnsson 0/1
Úlfar Jón Andrésson 0/1

Refsingar Björninn: 6 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Víkingar:

Ingvar Þór Jónsson 1/1
Lars Foder 1/1
Sigurður Reynisson 1/0
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/2

Refsingar Víkingar: 4 mínútur.

Mynd: Sigurgeir Haraldsson

HH