Björninn - UMFK Esja umfjöllun

Úr myndasafni
Úr myndasafni

Síðasti leikurinn af þeim fimm leikjum sem leiknir voru um helgina var leikur Bjarnarins og UMFK Esju sem fram fór í Egilshöllinni. Leiknum lauk með sigri Esju sem gerði þrjú mörk gegn tveimur mörkum Bjarnarins en framlengja þurfti leikinn þar sem jafn var eftir hefðbundinn leiktíma, 2 - 2. Heimamenn í Birninum léku án franska varnarmannsins Nicolas Antonoffs og hjá Esju vantaði Egil Þormóðsson en báðir voru leikmennirnir á sjúkralistanum.
Byrjunin var Bjarnarmönnum erfið því strax á þriðju mínútu kom Einar Sveinn Guðnason Esju yfir en Esja var á þeim tíma manni færri á ísnum. Lars Foder jafnaði metin þegar skammt var liðið af annarri lotu. Esjumenn náðu þó forystunni aftur skömmu áður en lotan var úti og lengi vel leit út fyrir að það mark dygði þeim til sigurs. Úlfar Jón Andrésson jafnaði hinsvegar metin fyrir Bjarnarmenn skömmu fyrir leikslok og framlenging því staðreynd. Bæði lið fengu góð tækifæri til að gera útum leikinn í framlengingunni þar sem bæði urðu fyrir að missa mann af velli. Þegar um ein og hálf mínúta var eftir af framlengingunni skoraði Ólafur Hrafn Björnsson markið sem skildi liðin að í lokin.

Björninn berst nú harðri baráttu við SR og SA Víkinga um sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í mars. Björninn er í þriðja sæti, þremur stigum á eftir SR en þessi lið mætast eimitt í næstu umferð sem fer fram í byrjun mars.

Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:
Lars Foder 1/0
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Brynjar Bergmann 0/1
Birkir Árnason 0/1

Refsingar Bjarnarins: 10 mínútur.

Mörk/stoðsendingar UMFK Esju:
Ólafur Hrafn Björnsson 1/1
Kole Bryce 1/0
Einar Sveinn Guðnason 1/0
Andri Þór Guðlaugsson 0/2

Refsingar UMFK Esju: 14 mínútur.

Mynd: Gunnar Jónatansson

HH