Björninn - SR umfjöllun


Björninn og Skautafélag Reykjavíkur áttust við í Egilshöll í gærkvöld. Leikurinn réði úrslitum um hvort liðið myndi mæta Skautafélagi Akureyrar í úrslitum Íslandsmótsins. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði 9 mörk gegn 4 mörkum og með sigrinum tryggði Björninn sér réttinn. Fyrir leikinn var ljóst að Bjarnarmenn þurftu 4ja marka sigur til tryggja sér sæti í úrslitunum.

Bjarnarmenn mættu mjög ákveðnir til leiks í fyrstu lotu og þegar nákvæmlega tvær mínútur voru liðnar af leiknum kom Gunnar Guðmundsson þeim yfir. Rúmlega mínútu síðar bætti Róbert Freyr Pálsson við öðru marki fyrir Bjarnarmenn þegar þeir nýttu sér að vera einum fleiri. Áður en lotunni lauk höfðu Bjarnarmenn bætt við fjórum mörkum og staða þeirra því orðin æði vænleg.  Mörkin gerðu Matthías S. Sigurðsson, Gunnar Guðmundsson og Brynjar F. Þórðarson sem var með tvö mörk. Staðan því 6 – 0 heimamönnum í vil og á brattann að sækja fyrir SR-inga.

SR-ingar komu sér inn í leikinn í annarri lotu með tveimur mörkum frá Daniel Kolar um miðja lotu. Bæði mörkin voru skoruð þegar liðið var einum fleiri (power play). Munurinn kominn niður í fjögur mörk og mikil spenna á ísnum. Hjörtur Geir Björnssson átti hinsvegar síðasta orðið fyrir Bjarnrmenn í annarri lotu og staðan orðin 7 – 2.

Í þriðju lotu var hart barist. Birgir J. Hansen bætti enn í forystuna fyrir Bjarnarmenn og kom þeim í þægilega 8 – 2 forystu. SR-ingar neituðu hinsvegar að gefast upp og Gauti Þormóðsson og Þórhallur Viðarsson minnkuðu muninn fyrir þá. Staða því 8 – 4 og fjórar mínútur til leiksloka. SR-ingar gerðu sitt ítrasta til að ná markinu sem upp á vantaði á meðan Bjarnarmenn gerðust nokkuð þaulsætnir í refsiboxinu. Til að auka enn sóknarþunga sinn tóku SR-ingar markmann sinn af velli og bættu í sóknina. Sú tilraun gekk hinsvegar ekki upp og 20 sekúndum fyrir leikslok skoraði Gunnar Guðmundsson í autt markið hjá SR-ingum.

Fjölmargir áhorfendur mættu í Egilshöllina í gær og hvöttu sitt lið.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Gunnar Guðmundsson 3/1
Brynjar F. Þórðarson 2/1
Hjörtur Geir Björnsson 1/2
Róbert F. Pálsson 1/1
Birgir J. Hansen 1/0
Matthías S. Sigurðsson 1/0
Ólafur Hrafn Björnsson 0/2
Úlfar Jón Andrésson 0/2
Kópur Guðjónsson 0/1
Vilhelm Már Bjarnason 0/1

Refsimínútur Björninn: 32 mín

Mörk/stoðsendingar SR:

Daniel Kolar 2/0
Gauti Þormóðsson 1/3
Þóhallur Viðarsson 1/0
Egill Þormóðsson 0/3
Árni Valdimar Bernhöft 0/1

Hluta af mörkunum úr leiknum má sjá hér næstu tvær vikurnar og myndasyrpa frá honum er á mbl.is

Úrslitakeppnin hefst á Akureyri fimmtudaginn 4 mars.

Myndina tók Jóhann Björn Ævarsson
 
HH