Björninn - SR umfjöllun

Björninn og Skautafélag Reykjavíkur áttust við í Egilshöllinni í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði 6 mörk gegn 3 mörkum SR-inga. Einhver hafði á orði að leikur sem færi fram á þessum tíma ætti að kallast jólasteikarleikurinn. Í honum kæmi oft fram hverjir hefðu haldið í við sig í mat og þá ekki síður æft á fullu yfir hátíðarnar.
En að leiknum. Fyrsti þriðjungur leit bara nokkuð vel út. Bæði lið sóttu og áttu sín hættulegu færi. Það var samt langt liðið á þriðjunginn þegar fyrsta markið koma en það var Ólafur Hrafn Björnsson, nýkominn heim frá Tyrklandi, sem setti það fyrir Björninn. Gleði Bjarnarmanna stóð þó ekki lengi því að Þórhallur Viðarsson jafnaði metin skömmu síðar fyrir SR-inga. Staðan 1 -1 eftir fyrsta þriðjung.

Önnur lotan var svipuð og sú fyrsta, þ.e. bæði lið sóttu af krafti. Uppskeran var þó æði misjöfn þar sem Bjarnarliðið gerði þrjú mörk en SR-ingar ekkert. Það voru Birgi Hansen, Sigursteinn Sighvatsson og Matthías S. Sigurðsson sem gerðu mörkin. Staðan því 4 – 1 Birninum í vil þegar annarri lotu lauk.
Um miðja þriðju lotu var staðan hinsvegar orðin 4 -3 eftir sitthvort markið frá Agli og Gauta Þormóðssonum og SR-ingar því komnir aftur inn í leikinn. En að þessu sinni var viljinn einfaldlega meiri hjá Bjarnarmönnum og þeir áttu síðustu tvö mörkin í leiknum. Það fyrra kom frá Brynjari Frey Þórðarsyni og hið síðara gerði Matthías Skjöldur.
Þrjú stig í hús fyrir Björninn sem hefur heldur betur tekið sér tak í síðustu leikjum og hleypt nokkurri spennu í mótið eftir að hafa verið mjög daufir framanaf.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Matthías Skjöldur Sigurðsson 2/1
Ólafur Hrafn Björnsson 1/1
Birgir Hansen 1/0
Sigursteinn Atli Sighvatsson 1/0
Brynjar F. Þórðarson 1/0
Óli Þór Gunnarsson 0/1
Hjörtur G. Björnsson 0/1
Trausti Bergmann 0/1
Bergur Árni Einarsson 0/1
Róbert Freyr Pálsson 0/1
Gunnar Guðmundsson 0/1

Refsimínútur Bjarnarins: 30 mín.

Mörk/stoðsendingar SR:

Egill Þormóðsson 1/1
Þórhallur Viðarsson 1/0
Gauti Þormóðsson 1/0
Arild Kári Sigfússon 0/1
Daniel Kolar 0/1
Andri Þór Guðlaugsson 0/1

Refsimínútur SR: 10 mín.

Myndina tók Ómar Þór Edvardsson

HH