Björninn - Skautafélag Reykjavíkur umfjöllun

Frá leiknum í gærkvöld
Frá leiknum í gærkvöld

Björninn bar í gærkvöld sigurorð af Skautafélagi Reykjavíkur í karlaflokki með fimm mörkum gegn þremu. Með sigrinum kom Björninn sér í efsta sæti deildarkeppninnar, einu stigi á undan Víkingum, en liðin berjast harðri baráttu um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.

Markatalan úr síðustu tveimur leikjum liðanna áður en kom að leiknum í gærkvöld var 27 - 2 Birninum í hag og útlitið því ekki bjart fyrir SR-inga. SR-ingar voru þó engu að síður fyrri til að skora en Miloslav Racansky kom þeim yfir á sextándu mínútu fyrstu lotu þrátt fyrir að Björnin væri sókndjarfari í lotunni.

Bóas Gunnarsson jafnaði hinsvegar metin fyrir Bjarnarmenn fljótlega í annarri lotu og á eftir komu ansi fjörlegar mínútur. Tvisvar sinnum komust SR-ingar yfir, með mörkum frá þeim Agli Þormóðssyni og Miloslave Racansky. Bjarnarmenn jöfnuðu hinsvebgar metin áður en mínúta var liðin í bæði skiptin, fyrst Sturla Snær Snorrason og síðan Falur Birkir Guðnason.

Úlfar Jón Andrésson sá síðan til þess að Björninn fór með 4 – 3 forystu inn í leikhléið. Þriðja lotan var lengi vel markalaus en undir lok hennar freistuðu SR-ingar þess að jafna með því að taka markmann sinn af velli og bæta í sóknina. Það bara ekki árangur og þess í stað skoraði Lars Foder spilandi þjálfari Bjarnarmanna í autt mark gestanna.


Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:

Falur Birkir Guðnason 1/1
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Bóas Gunnarsson 1/0
Sturla Snær Snorrason 1/0
Lars Foder 1/0
Andri Már Helgason 0/2
Trausti Bergmann 0/1
Snorri Sigurbergsson 0/1

Refsingar Bjarnarins: 48 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:

Miloslav Racansky 2/0
Egill Þormóðsson 1/1
Zdenek Prochazka 0/2

Refsingar SR: 26 mínútur.

Mynd: Gunnar Jónatansson

HH