Björninn - SA umfjöllun

Björninn og Skautafélag Akureyrar áttust við í Egilshöllinni á síðastliðinn laugardag. Leiknm lauk með sigri Skautafélags Akureyrar sem gerði 4 mörk gegn 3 mörkum Bjarnarmanna. Að loknum hefðbundnum leiktíma var staðan jöfn, bæði lið höfðu skorað þrjú mörk. Í framlengingunni náði Orri Blöndal hinsvegar að tryggja SA-mönnum aukastigið með gullmarki.
Leikurinn var jafn allan tímann en það voru SA-menn sem náðu þó að stjórna hraðanum mest allan leikinn.  

Liðin skoruðu sitthvort markið í lotunni. Orri Blöndal kom SA yfir en Birgir J. Hansen jafnaði metin fyrir Bjarnarmenn.

Svipað var upp á teningnum í annarri lotu. Jóhann Freyr Leifsson kom SA-mönnum yfir en Brynjar Freyr Þórðarson jafnharðan fyrir Bjarnarmenn. Staðan því 2 – 2.

Þriðja lota var með svipuðu sniði. SA-menn komust yfir og að þessu sinni var það Jón B. Gíslason sem skoraði eftir stoðsendingu frá Ingvari Þóri Jónssyni. En Bjarnarmenn gáfust ekki upp og þegar um ein og hálf mínúta lifði leiks jafnaði Gunnar Guðmundsson leikinn fyrir Bjarnarmenn. Lokakaflinn var því æsispennandi og mikil skemmtun fyrir fjölmarga áhorfendur. Einsog áður sagði náðu SA-menn að tryggja sér aukastigið sem var í boði.
Greinilegur stígandi er í leik SA-manna og með stigunum tveimur eru þeir komnir nálægt því að tryggja sér sæti í úrslitunum. SA-liðið lék án Josh Gribben en Sigurður Óli Árnason kom til baka eftir meiðsli. Fullmannað verður liðið erfitt við að eiga. Stigið sem Bjarnarmenn náðu sér í gæti orðið mikilvægt síðar meir. Bjarnarmenn hafa náð að bæta varnarleik sinn töluvert en í fyrstu fimm leikjum vetrarsins fékk liðið á sig 5,2 mörk en í síðustu fimm leikjum hefur liðið fengið á sig 3,2 mörk að meðaltali í leik.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Birgir J. Hansen 1/0
Brynjar F. Þórðarson 1/0
Gunnar Guðmundsson 1/0
Ólafur Hrafn Björnsson 0/1
Úlfar Jón Andrésson 0/1
Kópur Guðjónsson 0/1

Refsimínútur Björninn: 26 mín.

Mörk/stoðsendingar SA:

Orri Blöndal 2/0
Jón B. Gíslason 1/1
Jóhann F. Leifsson 1/0
Ingvar Þ. Jónsson 0/2
Gunnar D. Sigurðsson 0/1
Stefán Hrafnsson 0/1
Rúnar F. Rúnarsson 0/1

Refsimínútur SA: 22 mín.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH