Björninn - SA mfl. kvenna úrslit

Síðastliðin fimmtudag réðust úrslitin í meistaraflokki kvenna á Íslandsmótinu í íshokkí.
Til úrslita léku Björninn og Skautafélag Akureyrar og fyrir leikinn var staðan í einvíginu 1 – 1. Til að hampa titlinum þurfti að vinna tvo leiki og var því um hreinan úrslitaleik að ræða. Leiknum lauk með sigri SA-kvenna sem gerðu 4 mörk gegn engu marki Bjarnarstúlkna.


Einsog áður hefur komið fram léku SA-stúlkur deidlarkeppnina í vetur eftir breyttri reglugerð sem heimilar liðum að mæta með til leiks fleira en eitt lið í sama flokki. Að deildarkeppninni lokinni, sem Björninn vann, sameinuðust liðin hjá norðanstúlkum og léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.

En að leiknum sem fram fór í Egilshöll. SA-stúlkur mættu ákveðnar til leiks og strax á 7. minútu kom Arndís Sigurðardóttir þeim yfir eftir stoðsendingu frá Lindu Brá Sveinsdóttir. SA-stúlkur létu síðan kné fylgja kviði þegar Guðrún Blöndal bætti við marki þegar um 5 mínútur lifðu þriðjungsins en stoðsendinguna átti Birna Baldursdóttir. Staðan því 0 – 2 SA í vil eftir fyrstu lotu.

Í annarri lotu bættu norðanstúlkur enn í og á 6. mínútu hennar kom Anna Sonja þeim í 0 – 3. Stoðsendinguna átti Linda Brá Sveinsdóttir, hennar önnur í leiknum en þess má geta að SA-stúlkur voru einum færri á ísnum þegar markið kom. Ekki voru fleiri mörk skoruð í lotunni.

Snemma í þriðju lotunni innsiglaði svo Birna Baldursdóttir öruggan sigur norðanstúlkna eftir undirbúning þeirra Söru Smiley og Guðrúnar Blöndal.

Refsimínútur Björninn: 6 mín.

Mörk/stoðsendingar SA:

Guðrún Blöndal 1/1
Birna Baldursdóttir 1/1
Arndís Sigurðardóttir 1/0
Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0
Linda Brá Sveinsdóttir 0/2

Refsimínútur SA: 10 mín.

Eins og áður sagði var hér um hreinan úrslitaleik að ræða og á myndinni má sjá nýkrýnda Íslandsmeistara í meistaraflokki kvenna.

Við óskum SA-konum til hamingju með titilinn.

HH