Björninn - SA fjórði leikur í úrslitum

Úr leik liðanna.
Úr leik liðanna.

Björninn og Skautafélag Akureyrar áttust við í fjórða leik liðanna í úrslitakeppni karla í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði fjögur mörk gegn þremur mörkum SA-manna. Með sigrinum jöfnuðu Bjarnarmenn metin í úrslitakeppninni og því þarf oddaleik til að skera úr um hvort liðið hampar íslandsmeistaratitlinum.

Það voru Bjarnarmenn sem frumkvæðið í fyrstu lotu og það gaf þeim þrjú mörk áður en lotan var úti. Um miðja lotu kom Ólafur Hrafn Björnsson þeim yfir og fimm mínútum síðar bætti Sergei Zak við marki af miklu harðfylgi. Á síðustu mínútu lotunnar kom Daniel Kolar Birninum í 3 - 0 en stoðsendinguna átti Dave MacIsaac þjálfari Bjarnarins sem setti sig á liðslista að þessu sinni.

Leikurinn jafnaðist í annarri lotu og í henni skiptu liðin með sér sitthvoru markinu. Stefán Hrafnsson minnkaði muninn fyrir SA-menn rétt fyrir miðja lotu en Úlfar Jón Andrésson jók muninn fyrir Björninn aftur skömmu síðar.
Lengi vel leit út fyrir að Björninn ætlaði að halda góðu forskoti sínu til leiksloka en SA-menn eru nú þekktir fyrir allt annað en að gefast upp. Þegar um fjórar mínútur lifðu leiks gerðu þeir tvö mörk á innan við tveimur mínútum. Fyrra markið átti Andri Már Mikaelsson en það síðara Stefán Hrafnsson. Staðan því 4 - 3 og lokamínúturnar tvær voru æsispennandi og sjálfsagt hefur hjartslátturinn verið orðinn æði ör hjá fjölmörgum stuðningsmönnum liðanna í stúkunni. Fleiri mörk komu þó ekki og fimmti leikurinn því staðreynd.


Mörk/stoðsendingar Björninn:

Sergei Zak 1/1
Ólafur Hrafn Björnsson 1/1
Daniel Kolar 1/0
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Dave MacIsaac 0/2
Hrólfur M. Gíslason 0/1
Andri Már Helgason 0/1

Refsingar Björninn: 8 mínútur.

Mörk/stoðsendingar SA:

Stefán Hrafnsson 2/0
Andri Már Mikaelsson 1/0
Lars Foder 0/1
Andri Freyr Sverrisson 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Orri Blöndal 0/1

Refsingar SA: 8 mínútur.

Myndir: Elvar Freyr Pálsson

HH