Annar leikur Bjarnarins og Skautafélags Akureyrar í úrslitum í karlaflokki fór fram í Egilshöll í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri Skautafélags Akureyrar sem gerði 8 mörk gegn 4 mörkum Bjarnarmanna. Með sigrinum náðu SA-menn að jafna stöðuna í einvíginu en bæði liðin hafa unnið einn leik.
 
 Bjarnarmenn mættu mjög ákveðnir til leiks í fyrstu lotu og sóttu stíft á SA-menn. Þegar um fjórðungur var liðinn af lotunni kom Róbert Freyr Pálsson þeim yfir. Um miðja lotu nýtti Sergei Zak sér að SA-menn áttu slæma skiptingu einum færri og kom Bjarnarmönnum  í 2 – 0. Aftur nýttu Bjarnarmenn sér liðsmun þegar Falur Birkir Guðnason skoraði en það var Björn Már Jakobsson sem átti lokaorðið í lotunni með marki frá bláu línunni þremur mínútum fyrir lotulok. Staðan því 3 – 1 Bjarnarmönnum í vil. 
 
 SA-menn komu sér inn í leikinn í annarri lotu en það var Sigurður Óli Árnason sem kom Birninum í 4 – 1 fljótlega í lotunni. Um miðja lotu hlaut  Bjarnarmaðurinn Brynjar Bergmann sturtudóm og SA-maðurinn Orri Blöndal 2ja mínútna dóm. Bjarnarmenn spiluðu því manni færri í þrjár mínútur en SA-menn náðu ekki að sér liðsmuninn. Skömmu eftir að jafnt var í liðum aftur skoraði hinsvegar Andri Már Mikaelsson fyrir SA-menn. Meira var ekki skorað í lotunni og staðan því 4 – 2 í lotulok.
 
 SA-menn bættu enn í sóknina í þriðju lotu og náðu að setja í henni sex mörk án þess að Bjarnarmönnum tækist að svara. Á fimm mínútna kafla gerðu SA-menn þrjú mörk og breyttu stöðunni í 4 – 5. Stefán Hrafnsson kom SA-liðinu svo í 4 – 6 stöðu með skrautlegu marki  en síðstu tvö mörk norðanmanna áttu þeir Lars Foder og Andri Már Mikaelsson.
 
 Leikurinn var nokkuð harður á köflum og einstaka leikmenn stundum á gráu svæði hvað brot varðar. Liðin skiptu þó tveggja mínútna refsidómum nokkuð jafnt, Björninn hlaut sex dóma en SA-menn fimm.
 
 Næsti leikur verður á morgun laugardag og fer fram á Akureyri. Leikurinn hefst klukkan 17.00
 
 Mörk/stoðsendingar Björninn:
 
 Sergei Zak 1/0
 Sigurður Óli Árnason 1/0
 Falur Birkir Guðnason 1/0
 Róbert Freyr Pálsson 1/0
 Hrólfur M. Gíslason 0/1
 Trausti Bergmann 0/1
 
 Refsingar Björninn: 37 mínútur
 
 Mörk/stoðsendingar SA:
 
 Lars Foder 2/1
 Andri Már Mikaelsson 2/0
 Stefán Hrafnsson 1/2
 Sigurður S. Sigurðsson 1/1
 Björn Már Jakobsson 1/0
 Hermann Knútur Sigtryggsson 1/0
 Jóhann Már Leifsson 0/1
 Guðmundur Snorri Guðmundsson 0/1
 
 Refsingar SA: 10 mínútur.
Mynd: Sigurgeir Haraldsson
HH