Björninn - Ásynjur umfjöllun

Frá leiknum á laugardag                                                                                                              Mynd: Bryndís Ingibjörg Björnsdóttir

Á laugardagskvöld léku í Egilshöll lið Bjarnarins og Ásynja  í meistaraflokki kvenna. Leiknum lauk með sigri Bjarnarkvenna sem gerðu fjögur mörk gegn þremur mörkum Ásynja.

Ásynjur sem fram að þessum leik voru ósigraðar á íslandsmótinu tóku forystuna þegar lotan var tæplega hálfnuð með marki frá Önnu Sonju Ágústsdóttir en stoðsendinguna átti Arndís Eggerz Sigurðardóttir. Það tók hinsvegar Bjarnarkonur aðeins um mínútu að jafna leikinn og þar var að verki Flosrún Vaka Jóhannesdóttir en stoðsendinguna að þessu sinni átti Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir. Fleiri mörk voru ekki skoruð í lotunni og staðan því 1 - 1 eftir fyrstu lotu.

Svipað var upp á teningnum í annarri lotu bættu Bjarnarstúlkur í og náðu tveggja marka forystu með mörkum frá fyrrnefndri Flosrúnu og Hönnu Rut Heimisdóttir. Þær því komnar í þægilega 3 - 1 stöðu en í fyrri leikjum liðanna í vetur hafa Bjarnarstúlkur átt á brattann að sækja.

Ásynjur gáfust hinsvegar ekki upp og fljótlega í þriðju lotunni minnkuðu þær muninn með marki frá áðurnefndri Önnu Sonju. Bjarnarkonur komu sér hinsvegar í góða stöðu aftur þegar um sex mínútur lifðu leiks en þá gerði Hanna Rut sitt annað mark í leiknum. Ásynjur náðu að rétta hag sinn á síðustu mínútu leiksins með marki frá Arndísi Eggerz Sigurðardóttir en lengra komust þær ekki að þessu sinni.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 2/1
Hanna Rut Heimisdóttir 2/0
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir 0/3
Ingibjörg Guðríður Hjartardóttir 0/1

Refsingar Björninn: 16 mínútur

Mörk/stoðsendingar Ásynjur:

Anna Sonja Ágústsdóttir 2/1
Arndís Eggerz Sigurðardóttir 1/1

Refsingar Ásynjur: 6 mínútur.

HH