Í gær mættum við karlalandsliði Taívan (eða Kínverska Taipei). Er þetta er í fyrsta skipti sem þessi lið mætast í karlaflokki og var því spennan fyrir leik nokkur á meðal leikmanna og þjálfara. Fyrir þennan leik voru Taívanir búnir að sýna það að þeir geta vel spilað hratt og skemmtilegt íshokkí þegar þeir unnu Tæland nokkuð sannfærandi 7 - 3 en töpuðu gegn frísku liði Nýja Sjálands 3 - 1 deginum þar á undan.
Það var bersýnilegt strax í fyrsta leikhluta að hvíldardagurinn á undan, fundahöld þjálfaranna og síðan leikmanna, sín í milli, skilaði sér strax í leik liðsins. Agaðri leik hjá landsliðinu er vandfundinn og það skilaði sér snemma í lotunni þegar Taívanir fengu á sig refsingu þegar komið var á fimmtu mínútu lotunnar. Okkar strákar voru ekki lengi að koma sér fyrir inn í svæði Taívan og eftir stutt samspil á milli Gunnars Arasonar og Hilmars Sverrissonar átti Arnar Helgi Kristjánsson stórgott skot í markið og kom Íslandi yfir 1 - 0.
Leikmenn Taívan voru fimir og snöggir að nýta sér mistök íslendinga í öðrum leikhluta og áttu þónokkur tækifæri þar sem þeir sluppu í gegn 2 á einn og jafnvel einn á móti markmanni íslands. Baráttuviljinn hjá þeim var mikill en agaður leikur leikmanna Íslands gáfu þeim fá tækifæri. Annari lotu lauk, hvorugt liðið náði að skora og því allt í járnum þegar farið var inn í þriðju lotu leiksins.
Íslensku strákarnir héldu uppteknum hætti í upphafi þriðja leikhluta þar sem agaður leikur og leikgleði var í fyrirrúmi. Snemma í lotunni náði Viggó Hlynsson að koma pekkinum inn í sóknarsvæðið og í hendurnar á Jóhanni Má Leifssyni sem gerði góða atlögu að marki Taívan sem markmaður þeirra náði að verjast en Viggó fylgdi sóknnni vel á eftir og kom pekkinum í netið og koma Íslandi yfir 2 - 1. Við þetta juku taívanir enn í baráttuna, svo mjög að þeir uppskáru helst til of margar refsimínútur fyrir eina lotu á meðan voru við íslendingar áfram agaðir í okkar leik og sigldum góðum sigri í höfn. Lokaniðustaða því 2 - 1 fyrir Íslandi.
Helgi Ívarsson, markaður, var valinn maður leiksins hjá Íslandi.
Textalýsing leiksins: https://www.iihf.com/en/events/2025/wmiib/gamecenter/playbyplay/63292/7-isl-vs-tpe
Hægt er að horfa á alla leiki mótsins á streymiveitu IIHF, iihf.tv
Á morgun (föstudag) mætum við Tælandi og er það líklega í fyrsta skipti sem Ísland mætir því liði í karlaflokki. Tæland kom upp úr sínum riðli (Div III A) í fyrra þar sem þeir fór í gegnum þá deild ósigraðir með 29 mörk í plús. En þeir hafa ekki riðið feitum hesti í sínum viðureignum það sem af er móti þar sem þeir töpuðu 5 - 3 fyrir Búlgaríu, 7-3 fyrir Taívan og 7 - 1 fyrir Nýja Sjálandi. Allar líkur eru á að þeir fari niður um deild eftir þetta mót.