Áttum aldrei möguleika

Það má segja að í leiknum í gær höfum við íslendingar verið teknir í kennslustund í íshokkí, Lið Kóreu hafði algera yfirburði yfir okkur, en þrátt fyrir að yfirburðir liðsins hafi verið miklir verðum við líka að viðurkenna að frammistaða okkar var ekki neitt til þess að hrópa húrra fyrir. Leikmenn hægir og burðarstólpar liðsins voru að leika langt undir getu. Þannig má segja að fyrrihluta leiksins eða svona fyrstu 12 til 13 mörkin hafi mátt skrifa á doða okkar manna. Síðari hluta leiksins sýndu menn þó baráttuvilja og frumkvæði. En það verður líka að fylgja með að ekki er nokkur vafi að lið Kóreu er líkamlega sterkara, fljótara og tæknilega betra en við. þannig að tap var óhjákvæmilegt en vissulega var það óþarflega stórt.

Birkir Árnason stóð sig vel út allan leikinn og var valin besti maður leiksins, mig langar líka að nefna tvo nýliða sem frá mínum sjónarhóli stóðu sig ótrúlega vel og sýndu báðir baráttuþrek, kjark og stóðu þannig útúr hópnum en þetta voru Birgir Hansen og Úlfar Andresson.  

Þetta skipbrot er að hríslast úr mönnum og þegar þetta er skrifað er liðið komið á fætur eftir átök gærdagsins og mætt á morgunæfingu í skautahöllinni. Undirbúningur fyrir næsta leik gegn Áströlum er hafin en við mætum þeim á morgun klukkan 13:00 að staðartíma hér eða klukkan 4 um nótt að ykkar tíma heima.

VG