Ásynjur bundu enda sigurgöngu Ynja

Hertz deild kvenna á Akureyri
Hertz deild kvenna á Akureyri

Það var hart barist á svellinu 6. desember þegar Ynjur tóku á móti Ásynjum í sannkölluðum Akureyrarslag í Hertz-deild kvenna í íshokkí. Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins.

Þetta var önnur viðureign þessara tveggja liða sem Skautafélag Akureyrar teflir fram í deildinni og fyrirfram gert ráð fyrir hörkuleik. Ynjur hafa setið á toppi deildarinnar með sigra í öllum sínum leikjum en Ásynjur þar á eftir með aðeins eitt tap, einmitt gegn Ynjunum í síðasta leik liðanna. Þegar liðin mættust síðast unnu Ynjur 5-3 í hröðum og æsispennandi leik og því var ekki við öðru að búast enn að þessi viðureign yrði jafn spennandi enda vitað að Ásynjur vildu hefna fyrir síðasta tap.

Leikurinn fór hratt af stað og byrjuðu Ynjurnar af krafti. Þær stjórnuðu spilinu í byrjun leiks og það var greinilegt að þær ætluðu sér annan sigur. Eftir aðeins rúmlega 8 mínútna leik skoraði Silvía Rán Björgvinsdóttir fyrsta mark leiksins. Hún var fljót að nýta sér það að leikmenn Ásynjuliðsins fóru í skiptingu og komst hún þá inn í svæðið og kom pekkinum í mark Ásynja. Stuttu síðar skautaði Kolbrún María Garðarsdóttir upp allan ísinn fyrir Ynjur, fór illa með varnarmenn Ásynja og náði flottu skoti sem markmaður Ásynja, Fanney Ösp Stefánsdóttir, varði glæsilega en það dugði ekki til þar sem Apríl Orongan var mætt strax í frákastið og skoraði þar með annað mark Ynja. Ásynjur náðu ekki að svara fyrir sig fyrr en undir lok fyrstu lotu þegar Guðrún Marín Viðarsdóttir skoraði frá bláu línunni fyrir Ásynjur.

Önnur lota var markalaus en hún einkenndist af mikilli baráttu beggja liða. Ásynjur bættu aðeins í og sóttu meira að marki Ynja en þær höfðu gert í fyrstu lotunni en það dugði ekki til. Ynjur fengu gott tækifæri til að auka forskotið þegar þær fengu að spila fimm á móti þremur í tæpar tvær mínútur þegar Ásynjur misstu tvo menn í refsiboxið með stuttu millibili. Það kom þó ekki að sök því Ásynjur vörðust vel, eins og þær eru þekktar fyrir þegar þær þurfa að spila einum eða tveimur mönnum færri. Ynjur misstu líka leikmenn í boxið en Ásynjur náðu ekki heldur að nýta sér liðsmuninn og staðan var því enn 2-1 Ynjum í vil fyrir síðasta leikhlutann.

Í þriðju og síðustu lotunni bættu Ásynjur enn meira í og tóku stjórnina í leiknum. Þær sóttu grimmt að marki Ynja en gekk erfiðlega að koma pekkinum fram hjá markmanni Ynja, Birtu Þorbjörnsdóttur, sem varði vel. Þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum skoraði Anna Sonja Ágústsdóttir úr frákasti eftir hörkusókn og jafnaði þar með fyrir Ásynjur. Hvorugt lið náði að skora á næstu mínútum og leit allt út fyrir að leikurinn myndi fara í framlenginginu. En þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma bar Birna Baldursdóttir pökkinn upp ísinn og tókst, með ótrúlegu bakhandarskoti, að skora sigurmarkið þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Úrslitin urðu því 2-3 Ásynjum í vil og tókst þeim þar með að enda sigurgöngu Ynjanna.

Þessi tvö lið mætast aftur þann 27. desember og gerum við ráð fyrir mikilli spennu og hörku í þeim leik þar sem bæði lið vilja krækja í toppsæti deildarinnar. Við hvetjum alla til að mæta þá og sjá íslenskt kvennahokkí eins og það gerist best.

Mörk og stoðsendingar Ynja:

Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0

Apríl Orongan 1/0

Kolbrún María Garðarsdóttir 0/2

Refsimínútur Ynja:

4 mín

 

Mörk og stoðsetningar Ásynja:

Guðrún Marín Viðarsdóttir 1/0

Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0

Birna Baldursdóttir 1/0

Jónína Margrét Guðbjörnsdóttir 0/1

Alda Ólína Arnarsdóttir 0/1

Refsimínútur Ásynja:

4 mín.