Áramótapistill

Segja má að áramótapistillinn í fyrra hafi hrunið eins og sumt annað. Pistillinn var reyndar skrifaður en aldrei birtur. Sjálfsagt af því að höfundurinn var aldrei ánægður með hann. Pistillinn verður því í lengra lagi að þessu sinni að það má alltaf lesa hann í pörtum.  
 
Mótamál
Segja má að töluverðar breytingar hafi orðið á mótamálum þetta árið. Mótahaldið er þó í nokkuð föstum skorðum en mikið hefur verið liðkað til varðandi skráningu liða í mót og leikheimildum leikmanna. Stærsta breytingin er sú að nú má skrá fleira en eitt lið til keppni í íslandsmeistaramóti. Skautafélag Akureyrar reið á vaðið og skráði tvö lið til keppni í meistaraflokki kvenna. Með þessu fær allur hópurinn sem æfir tækifæri á að spila og framþróun leikmanna verður hraðari. Í framtíðinni er mjög líklegt að fleiri fylgi í fótspor stelpnanna frá Akureyri. Segja má að frumkvæði þeirra komi öllum vel því í leiðinni gefst tækifæri á að sjá hvort einhverjir agnúar eru á fyrirkomulaginu.
Önnur breyting sem var gerð er að nú er mögulegt að flytja takmarkaðan fjölda leikmanna niður um flokka. Þetta er sérstaklega ætlað fyrir þá leikmenn sem lítil tækifæri eru að fá í sínum frumflokki. Kerfið reynir aðeins á, því að sjálfsögðu er umdeilanlegt hvenær á að flytja leikmenn  niður og hvenær ekki. Mín skoðun er hinsvegar sú að það sé vel þess virði að halda því úti. Bæði fyrir leikmenn sem hafa dregist aftur úr, hætt eða eru að ná sér af meiðslum.

Dómaramál
Í lítilli íþrótt eins og íshokkí er nálægðin mikil og því vilja málin verða einstaka sinnum persónuleg. Ég segi stundum í gríni að þegar menn ræða málin að nýloknum íshokkíleik þá líði yfirleitt ekki langur tími, þangað til minnst er á dómarann, ef hann er þá ekki fyrstur á dagskrá. Fyrir mér er þetta svolítið eins og að fara í bíó og tala bara um poppið en ekki myndina þegar maður kemur út.
Að meta dómgæslu frá ári til árs er ekki mjög létt verk og sjálfsagt margar skoðanir í gangi. Ýmsar hugmyndir eru þó í gangi og í byrjun tímabilsins voru gerðar breytingar á yfirstjórn dómaramála. Hvort og hvernig sú breyting kemur til með að virka mun tíminn einn leiða í ljós.

Aðra breytingu hefur mátt sjá í sumum leikjum að undanförnu en hún er sú að dæmt hefur verið eftir svokölluðu fjögurra dómara kerfi. Það þarf ekki mikil vísindi til að finna út að betur sjá fjögur augu en tvö augu. En það eitt dugir ekki til. Dómaranir tveir þurfa að ná að vinna vel saman og á næstunni kemur í ljós hvernig þeim gengur að “para” sig.
Eitt af því sem maður hefur heyrt um þetta kerfi er að dómarar séu að pikka út brot sem engin áhrif hafa á leikinn. Spurningin er þá líka, hversvegna leikmenn eru að “slassa” eða “húkka” einhverstaðar lengst frá þeim stað þar sem miðdepill leiksins er. Brot verða ekki leyfileg við það eitt saman að þau hafi ekki áhrif á leikinn.


Útbreiðslumál

Þrátt fyrir að á móti blási í þjóðfélaginu þá hafa aðildarfélög ÍHÍ gert sitt allra besta til að halda sínu hvað iðkendur varðar. “Hokkídagurinn mikli” var haldinn í september en það var Útbreiðslunefnd ÍHÍ sem stóð fyrir honum. Dagurinn tókst ágætlega og vonandi verður því hægt að endurtaka leikinn. Meiri tíma þarf þó í undirbúning en erfiðlega gekk að fá staðfestingu á ístíma í einni höllinni.
Íshokkí hefur náð að festa sig í sessi sem íþrótt í einum fréttamiðli, þ.e.a.s Morgunblaðinu og netútgáfu þess mbl.is. Það er að sjálfsögðu stór sigur fyrir okkur, því mikil nauðsyn er á að um sportið okkar sé fjallað. Vonandi verður þar framhald á og ekki mun standa á hokkímönnum að gera sitt besta, til að svo megi verða

Landsliðsmál
Segja má að árangur landsliða Íslands í íshokkí hafi verið góður á liðnu ári. Karlalandsliðið náði sínum besta árangri til þessa á HM-móti í Serbíu og var hársbreidd frá því að ná sér í bronssæti. Liðið þokast jafnt og þétt upp á við á styrkleikalista IIHF og breiddin í liðinu batnar með hverju árinu.
Ekki var HM-mót hjá kvennalandsliðinu þetta árið en þess í stað var haldið svokallað NIAC-mót sem fram fór á Akureyri í lok tímabilsins. Mótið tókst með miklum ágætum og var þeim sem sáu um framkvæmdina til mikils sóma. Áformað er að halda mótið aftur á komandi ári.
U18 ára liðið hélt síðan til Tyrklands til þáttöku í 3. deildarkeppni á HM. Liðið vann þar glæsilegan sigur og var áberandi besta liðið í deildinni.
Líklegt er að einhverjar breytingar verði á HM þátttöku íslenskra landsliða. Ýmsar tillögur eru upp á borðinu hjá IIHF og stefnt er að því að ljúka málinu í maí á næsta ári. Ljóst er þó að umsvif landsliðsstarfs mun í framtíðinni eitthvað minnka.


Framtíðin
Þrátt fyrir að ýmislegt gangi á í þjóðfélaginu þá eru alltaf einhverjir möguleikar í stöðunni. ÍHÍ hefur undanfarin þrjú ár verið að vekja athygli bæjarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á að tími væri til kominn að þau færu að byggja skautasvell. Ekki er hægt að segja að beinn árangur hafi náðst en verkefnið sem ég hef kallað “Dropinn sem holar steininn” hefur þó minnt stjórnmálamenn á skautaíþróttirnar. Hætt er við að nú þegar kreppir að í rekstri sveitarfélaga verði þessum málum slegið á frest en við munum samt sem áður halda okkar striki og minna á okkur jafnt og þétt.

Til eru úrtölumenn sem telja að á höfuðborgarsvæðinu þurfi ekki fleiri skautasvell en þeir eru sem betur fer fáir. Til að skautaíþróttir nái að blómstra hér á landi þarf fleiri svell. Engum dettur í hug að íslendingar væru að gera eitthvað á alþjóðavettvangi í knattspyrnu ef hér væru einungis þrír knattspyrnuvellir. Ekki má heldur gleyma að skautasvell eru ein af fáum íþróttamannvirkjum sem nýtt eru bæði af íþróttafólki og almenningi. Hér er því um skemmtilega viðbót að ræða fyrir þá sem vilja hreyfa sig svo ekki sé nú talað um þegar heilu fjölskyldurnar koma saman til þess. Framundan eru sveitastjórnakosningar á næsta ári. Þá er tilvalinn tími fyrir alla áhugamenn um skautaíþróttir, hvar sem þeir búa, að minna flokka og fulltrúa á nauðsyn þess að byggja skautasvell í stærri bæjarfélögum.
 
Það fer að verða gífurlega mikilvægt fyrir hokkííþróttina (og svo sem aðrar skautaíþróttir) að hafin verði bygging fljótlega á nýju skautasvelli. Í skoðanakönnun sem útbreiðslunefnd ÍHÍ gerði fyrir rúmlega ári síðan kom í ljós að iðkendur úr Kópavogi en þó sérstaklega Hafnarfirði og Garðabæ eru sárafáir. Foreldrar sjá fyrir sér langan akstur á æfingar og annað umstang og beina því börnum sínum í aðrar íþróttir. Þessi bæjarfélög eru því óplægður akur fyrir okkur. Smátt og smátt er að byggjast upp þekking í hreyfingunni um hvernig á að standa að uppbyggingu hokkístarfs. Því má segja að þegar nýtt skautasvell verður byggt þá verður hreyfingin tilbúin.

ÍHÍ vinnur um þessar mundir að svokölluðu Mentor-verkefni við stórar íshokkíþjóðir. Verkefnið snýst um að Norðurlandaþjóðirnar ásamt Kanadamönnum  aðstoði okkur við að bæta alla umgjörð og gæði leiksins. T.d. eru uppi hugmyndir um að fá menn sem sérhæfa sig í að skipuleggja starf félaga. Einnig að hingað komi  markmannsþjálfarar (þjálfarar), og að íslenskir þjálfarar fái að kynnast vinnubrögðum kollega sinna í Mentor löndunum.  

ÍHÍ hefur um nokkura ára skeið haft stefnumörkun fyrir landslið sín og segja má að hún hafi í öllum meginatriðum gengið upp. Nú er hinsvegar unnið að heildar stefnumótun fyrir ÍHÍ og vonast er til að sú vinna klárist fyrir lok tímabilsins. Þess má einnig geta að fyrr á árinu kom fulltrúi IIHF í heimsókn til landsins og gerði úttekt á sambandinu en unnið er að taka út öll sambönd innan IIHF. Útkoman var ásættanleg en úttektin gefur ÍHÍ líka nýjar hugmyndir um hvað bæta má í starfinu.

Að lokum

Lífið er breytingum háð. Því höfum við íslendingar svo sannarlega fengið að kynnast undanfarið rúmlega ár eða svo. Íshokkí á Íslandi er þar ekki undanskilið en sem betur fer hafa flestar breytingarnar verið til góðs. Hinsvegar er það deginum ljósara að nú kreppir að bæði hjá foreldrum iðkenda en einnig hjá opinberum jafnt sem einkaaðilum sem styrkt hafa félögin. Hætt er við að ýmis vandamál sem snúa að stjórnarmönnum og þeirra sem koma að félögunum koma aukist frekar heldur en hitt. Ég óska þeim sérstaklega velfarnaðar í störfum sínum.

Hokkífólki og öðrum lesendum óska ég gleðilegs árs og þakka liðið.

Hallmundur Hallgrímsson