Anna Sonja í Svíþjóð

Hún Anna Sonja Ágústsdóttir leikmaður landsliðsins og SA  ákvað fyrir þetta tímabil að halda til Svíþjóðar til að spila íshokkí. Hún er að spila með Malmö Redhawks (MR) í 2. deild og þegar við heyrðum í henni var liðið búið að spila 4 deildarleiki.Áður en til þess kom hafði tveimur leikjum verið frestað og eftir það komu tvö töp sem voru í stærri kantinum. Um þar síðustu helgi voru síðan leiknir tveir leikir gegn Linköpings og unnust þeir báðir 10 – 4 og 10 – 5. Liðið sem Anna Sonjar er að spila með var stofnað í haust og eru flestar stelpurnar á aldrinum 14-16 ára. Mikið uppbyggingarstarf fer nú fram í sænsku kvennaíshokki og taldi Anna Sonja ekkert ólíklegt að liðið næði að vinna sig upp í 1. deild á næstu árum. Þjálfarinn hjá MR heitir Helena Tageson og stutt er síðan hún spilaði með sænska kvennalandsliðinu. Til að styrkja lið sitt spilaði Helena með liði sínu í síðustu tveimur leikjum og sagði Anna Sonja að það hefði átt stóran þátt í árangri þeirra í leikjunum gegn Linköpings.
Anna Sonja sagði að það hefði ekki skemmt fyrir að í marki Linköpings stóð Lyndal Heineman sem er annar markmaðurinn hjá Nýsjálenska kvennalandsliðinu. Því hefði sigurinn á Linköpings verið enn sætari en eins og menn muna vann íslenska kvennaliðið þær Ný-Sjálensku á síðasta HM.

HH