Æfingaleikir við Storm


Íslenska landsliðið í íshokkí lék á laugardagskvöldið gegn Storm, en það er lið frá Finnlandi, og lauk leiknum með sigri íslenska liðsins sem gerði 6 mörk gegn 3 mörkum finnska liðsins. Leikirnir eru hluti af undirbúning íslenska liðsins fyrir þátttöku í 2. deild heimsmeistaramóts sem fram fer í Tallin í Eistlandi. Leikirnir verða líka nýttir til að velja inn 22. manninn í liðið en sóknarmaðurinn Gauti Þormóðsson á að öllum líkindum ekki heimangengt vegna anna í námi.

Íslenska liðið, sem að þessu sinni hafði einn erlendan leikmann Daniel Kolar innan sinna vébanda komst yfir á 6. mínútu.  Finnarnir jöfnuðu hinsvegar skömmu síðar og komust yfir þegar ein sekúnda lifði leikhlutann.

Meira jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta sem endaði með því að liðin skoruðu sitt markið hvort.
Daniel Kolar jafnaði leikinn fyrir Ísland en Storm-verjar komust aftur yfir um miðja lotu og þar við sat. Staðan því 2 - 3 fyrir lokalotuna.

Íslenska liðið átti hinsvegar þriðju lotuna og Vilhelm Már Bjarnason jafnaði metin. Það voru síðan Arnþór Bjarnason og Daniel Kolar, með tvö mörk, sem áttu lokaorðið fyrir íslenska liðið.

Á sunnudaginn léku liðin aftur og að þessu sinni í Laugardalnum en sá fyrri fór fram í Egilshöll. Rétt einsog í fyrri leiknum bar íslenska liðið sigur úr býtum en það gerði 2 mörk gegn 1 marki Storm-verja. Eitthvað var um mannabreytingar milli leikja, Jóhann Leifsson og Ólafur Hrafn Björnsson voru komnir í frí og heima lágu veikir Gunnar Guðmundsson og Þorsteinn Björnsson. Í þeirra stað voru komnir Úlfar Jón Andrésson, Andri Þór Guðlaugsson og Svavar Steinssen.

Leikurinn var ágætlega fjörlegur þrá fyrir að mörkin væru aðeins þrjú. Finnarnir áttu fleiri skot á mark í fyrstu lotu en það var nokkuð einkennandi fyrir þá að reyna mikið markskot þótt færin væru misjafnlega góð. Þrátt fyrir markskotin var það íslenska liðið sem komst yfir undir lok þriðjungisins og sá Arnþór Bjarnason um markaskorunina eftir stoðsendingu frá Ingvari Þór Jónssyni.

Annar leikhluti var varla byrjaður þegar Storm-verjar jöfnuðu með marki frá Haskana Teppo en hann lét mikið að sér kveða í leikjunum og var á endanum valinn MVP finnska liðsins en það var Richard Tahtinen og leikmenn íslenska liðsins sem sáu um valið. Mörkin urðu ekki fleiri í 2. lotu og staðan því jöfn 1 – 1. Finnarnir fengu reyndar ágætis tækifæri til að komast yfir þegar þeim var dæmt vítaskot en Ævar Björnsson sá um að verja.

Í þriðju lotunni náði íslenska liðið að landa sigrinum þegar um sjö mínútur voru liðnar af lotunni. Þar var að verki Gauti Þormóðsson eftir stoðsendingar frá Ingvari Þór Jónssyni og Daniel Kolar.

Einsog áður sagði eru leikirnir hluti af undirbúningi fyrir HM en liðið heldur utan þann 6. apríl til frekari undirbúnings en mótið hefst 10. apríl.

HH