Æfingabúðir kvenna U18

U18 íshokki kvenna
U18 íshokki kvenna

Nú um helgina hélt kvennanefnd ÍHÍ æfingabúðir fyrir 25 stúlkur yngri en 18 ára. Æfingabúðirnar voru hugsaðar sem hvatning til stúlkna á unglingsaldri til að halda áfram að æfa íshokkí og til að fá nýjar stúlkur í hópinn. Einnig er það langtímamarkmið kvennanefndar að stofna landslið U-18 stúlkna en til þess þarf að uppfylla þau skilyrði að 45 leikmenn þurfa að vera á aldrinum 15-18 ára. Nú eru þær einungis 15 en á næstu árum fjölgar töluvert í hópnum því 10-14 ára stelpur eru 26 talsins og 10 ára og yngri stelpur eru 28.

 

Markmiðin voru sem fyrr segir að byrja umræðu um U-18 ára lið, gefa stúlkunum innsýn inn í það hvernig er að taka þátt í landsliðsprógrami og að hitta erlenda leikmenn og þjálfara sem hafa náð langt. Auk þess að fara á fjórar ísæfingar um helgina, fengu stúlkurnar fyrirlestra um næringu og gott mataræði frá Söruh Smiley, markmiðasetningu frá Lindu Brá og höfuðhögg og heilahristing frá Steinunni Erlu. Stúlkurnar fóru einnig á æfingar fyrir og eftir ís þar sem þær lærðu upphitun, “cool down” og teygjur. Mikil áhersla var lögð á leiki og samhæfingu á öllum æfingum. Guðlaug þjálfaði markmenn og Annina Rajahuhta og Heidi Pelttari komu frá Finnlandi til að þjálfa.

 

Annina og Heidi sögðu stelpunum sína sögu en þær hafa spilað með landsliði Finnlands og unnu brons á Ólympíuleikunum 2010. Heidi er varnarmaður og spilaði hún með Minnesota Duluth í fimm ár og vann þar NCAA, fékk demantshring og heimsókn til George Bush í Hvíta húsið. Anniina spilaði eitt ár með Burlington Barracudas í CWHL og hefur síðan í efstu deild í Finnlandi. Þær sögðu skemmtilega frá og töluðu um markmið, næringu og hugarfar sem allt skiptir máli hjá afreksíþróttafólki. Einnig sagði Heidi frá því þegar hún hitti Sidney Crosby og vakti það mikla lukku meðal stúlkna og íslensku þjálfaranna.

 

SR og Björninn tóku vel á móti stúlkunum og kvennanefndin þakkar þeim kærlega fyrir aðstoðina. Annina og Heidi enduðu ferðalagið með heimsókn í Bláa Lónið og fóru Gullna hringinn. Þær voru hrifnar af landinu og hrósuðu stúlkunum mikið fyrir hæfileika og töldu margar mjög efnilegar. Þessar æfingabúðir voru fyrst og fremst hvatning fyrir stelpur til að spila hokkí og hafa gaman.

Kvennanefndin þakkar fyrir sig!

Steinunn, Linda, Sarah, Anna Birna og Anna Sonja