Æfingabúðir á Akureyri standa yfir

Það er mikið um að vera í Skautahöllinni á Akureyri þessa helgina því þar standa yfir æfingar hjá U18 og karlalandsliðinu.  Þessi helgi hentar mjög vel til æfinga þar sem listhlaupamót fer fram í Reykjavík og listhlaupadeild SA lét eftir ístíma sinn fyrir landsliðin þessa helgi.  Því til vibótar var áætluðum leikjum á milli kvennaliða SA og Bjarnarins frestað vegna veðurs og þar bættist við enn meiri ístími.

Því er óhætt að segja að reynt verður á leikmenn til hins ítrasta og rétt að geta þess að það er fjölmennt og alþjóðlegt þjálfarateymi sem kemur að þessum æfingum.  Með U18 ára liðið eru þeir Sergei Zak og Jón Gíslason, og með karlaliðið eru Sveinn Björnsson og Richard Tahtinen sem flaug alla leið frá Svíþjóð til að taka þátt í æfingabúðum.  Þeim síðan til aðstoðar er Sarah Smiley, þjálfari kvennalandsliðsins og Michael Boudreau sem er kanadískur markmaður sem dvelur um þessar mundir hér á Akureyri.

Sarah tók karlaliðið í morgun í þoltest á ísnum sem innihélt m.a. 12 spretti langsum eftir ísnum, eða öllu heldur 6 x 120m spretti með 15 sekúndna hléi á milli.  Virtist sem þetta hafi tekið nokkuð á liðið en menn voru óðum að jafna sig því stutt í næstu átök.  Önnur ísæfing verður hjá liðinu nú í hádeginu og síðan leikur í kvöld á milli landsliðanna.
Þegar þessi orð eru skrifuð er U18 ára liðið á ísnum en þeir fóru út að hlaupa í morgun sem síðan var fylgt eftir með þrekæfingum að hætti Sergei Zak.