Að mótslokum



Nú eru örfáir dagar síðan heimsmeistaramóti karla annarri deild A lauk hér í Laugardalnum.  Karla liðið okkar náði besta árangri sem það hefur nokkurntíma náð og tók eitt enn skrefið upp á við á heims-styrkleikalistanum.  Það er í raun alveg ótrúlegt afrek sem liðið hefur unnið frá því að það tók fyrst þátt í riðlakeppni heimsmeistaramótsins árið 1999.  Ég skal alveg viðurkenna að mig langaði mjög mikið í bronz þar sem við fengum tækifæri til þess að spila til úrslita um það. En Króatar, Spánverjar og Eistar voru of stór biti fyrir okkur að þessu sinni. Það verður að hafa það í huga að við erum að tefla fram sérlega ungu liði sem á mikla framtíð fyrir sér. Örfá ár í viðbót og þá verðum við farin að berjast um sæti í fyrstu deild ef við höldum vel á okkar málum.

Það hefur verið ánægjulegt hlutskipti að taka á móti þakklæti þeirra sem voru gestir okkar á meðan á þessu móti stóð. Samdóma álit þeirra allra er að sérlega vel hafi tekist til með mótahaldið. Frábær aðbúnaður, mikill og góður matur og lipurt og þægilegt viðmót allra starfsmanna.

Ég vill nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem lögðu hönd á plóg og gerðu þetta mótahald eins glæsilegt og raun ber vitni. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hversu mikið lán okkar í þessari hreyfingu er að hafa sérlega áhugasamt, kraftmikið og duglegt fólk innan okkar raða.

Hafið bestu þakkir fyrir alla aðstoðina, án ykkar hefði þetta ekki verið hægt.

Viðar Garðarsson
formaður
Íshokkísambands Íslands.